Það hlýtur að vera vitlaust gefið í þessu leikriti lífsins
Kæru Suðurnesjamenn!
Aðventan er gengin í garð og þetta er 8. árið mitt sem verkefnisstjóri hjá Fjölskylduhjálp Íslands í Reykjanesbæ. Ég hugsa til baka til ársins 2010 en þá var ástandið hér á Suðurnesjum vægast sagt dapurt. Margir áttu bágt og atvinnuleysi mikið, fólk að missa heimilin sín og margt var ekki í lagi í samfélagi okkar. Nú er að enda árið 2018 og ekki sér fyrir endann á þessu böli.
Það er dapurt til þess að hugsa að við eigum ömmur, afa, pabba og mömmur ásamt unga fólkinu okkar sem er að byrja lífið standa hér í röðum hjá Fjölskylduhjálp Íslands eftir mataraðstoð. Hvernig má þetta vera? Það hlýtur að vera vitlaust gefið í þessu leikriti lífsins. Þar sem ríkja á jöfnuður hjá öllu fólki og allir eiga að getað lifað mannsæmandi lífi. Þeir sem byggðu upp landið okkar af heiðarleika, dugnaði og trú um að þau væru að vinna að framtíðinni en þurfa í dag að leita ásjár hjálparstofnanna. Þvílík skömm í okkar góða landi. Til mín kemur fólk á níræðisaldri sem á ekki fyrir mat eftir 15. hvers mánaðar. Eins er það hjá þeim sem eru á örorku og lægstu launum. Þetta er sorglegt, gamla fólkið sem við eigum að umvefja nýtur ekki lífsgæða vegna peningaleysis og upplifir sig mjög einmana. Gamla fólkið talar um að það eigi afkomendur sem gera sér ekki grein fyrir stöðu þeirra. En það er svo í okkar þjóðfélagi að ekkert virðist vera gert til að bæta kjör þessara hópa. Þessir hópar skulu fá að svelta, fátækt skal vera viðhaldið sama hvað. En það er svo að enginn vill vita af þessum hópum. Okkur finnst að allir eigi að geta lifað af allt árið án hjálpar frá öðrum. Jólin koma og okkur finnst að allir geti upplifað gleði jólahátíðarinnar. Þessi jól verða líklegast þau erfiðustu frá byrjun hér á Suðurnesjum. Margir hafa leitað nú þegar eftir aðstoð fyrir jólin. Það gekk verulega á matarsjóð Fjölskylduhjálpar Íslands í sumar þar sem við vorum eina hjálparstofnunin sem lokaði ekki yfir sumartímann.
Fjölskylduhjálp Íslands í Reykjanesbæ úthlutar 350 matargjöfum í hverjum mánuði fyrir utan neyðaraðstoðir sem oft eru alla daga. Ég vil fá að segja ykkur frá okkar góða starfi sem unnið er af 14 sjálfboðaliðum sem margir hverjir hafa verið frá byrjun og aðrir hafa síðar bæst í hópinn. Flest okkar vinna alla virka daga. Í okkar hópi eru öryrkjar, eldri borgarar sem vilja gefa af sér til þjóðfélagsins, allir fá að njóta sín og vinna eftir þeirra starfsgetu. Við erum í góðri samvinnu við Fangelsismálastofnun en frá henni tökum við á móti fólki á öllum aldri sem fær að taka út sinn dóm með samfélagsþjónustu hjá okkur. Á Baldursgötu 14 rekum við nytjamarkað þar sem fatnaður og aðrir nytjahlutir fá nýja eigendur. Við bjóðum alla velkomna að versla á markaði okkar og styrkja matarsjóðinn. Við bjóðum uppá gott andrúmsloft og alltaf heitt á könnunni. Þeir sem geta lagt okkur lið er bent á reikning 0546-26-6609 og kt 660903-2590.
Ég á mér draum að útgerðarfélög á Suðurnesjum sjái sér fært að færa okkur fisk til að úthluta fyrir jólin.
Fátæktin er enn við lýð
aðrir liggja á auði.
Í röðum fólk í kulda og hríð
hímir eftir brauði.
Við léleg laun og afleidd kjör
verður þú að búa,
að betla allt er erfið för
en hver vill þessu trúa.
(höf: RKF)
Kærleiksþakkir til allra sem stutt hafa starfið í gegnum árin.
Anna Valdís Jónsdóttir,
varaformaður og verkefnisstjóri Fjölskylduhjálpar Íslands á Reykjanesi.