Aðsent

Það er vitlaust gefið
Þriðjudagur 24. október 2017 kl. 07:00

Það er vitlaust gefið

- Ábyrgð þingmanna Suðurkjördæmis

Reykjanesbær kynnti úttekt á fjárveitingu ríkisins til helstu stofnana á Suðurnesjum á opnum fundi á fimmtudaginn var. Upplýsingarnar voru sláandi enda fá stofnanir á Reykjanesinu undantekningalaust lægri fjárframlög frá hinu opinbera.
En hver ber ábyrgð á þessu misræmi? Hvernig stendur á því að við á Suðurnesjum sitjum ekki við sama borð þegar kemur að þessari úthlutun til stofnana á Suðurnesjum? Rikið þarf að svara fyrir sinn hlut, en það þurfa alþingismenn okkar í kjördæminu svo sannarlega líka að gera. 
 
Við höfum nefninlega vitað það í mörg ár að það hallar á Suðurnesin þegar kemur að skiptingu kökunnar og útdeilingu fjármagns. Þetta eru ekki nýjar upplýsingar. Samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum hafa tekið samantekt úr fjárlögum frá árinu 2010 og hafa ítrekað bent á þetta misræmi.
 
Það er hjákátlegt að sjá þingmenn af svæðinu stökkva upp núna í aðdraganda kosninga og láta sig málið varða. Eins og þeir hafi bara rétt verið að átta sig á stöðu mála og þessari hróplegu misskiptingu.
 
Suðurnesin hafa átt fjölmarga þingmenn undanfarin kjörtímabil bæði í stjórn og stjórnarandstöðu. Aldrei eins marga og á árunum 2013 - 2016. Ekki nóg með það. Suðurnesin hafa átt fjármálaráðherra og iðnaðarráðherra. Ekki skilaði það nú miklu (nema stóriðju í Helguvík) og ekki var að sjá að Oddný Harðardóttir hafi leiðrétt þetta hróplega misræmi þegar hún hafði gullið tækifæri til þess í tíð sinni sem fjármálaráðherra.
 
Annaðhvort hafa þessir alþingismenn engin áhrif í sínum flokkum til að koma málefnum allra sveitarfélaga í kjördæminu sínu að borðinu eða þeir vinna betur fyrir sum þeirra en önnur. 
 
Við höfum gefið þessum þingmönnum tækifæri trekk í trekk, ár eftir ár, kosningar eftir kosningar. Við höfum trúað því að þau ynnu saman eins og þingmenn annarra kjördæma í leiðrétta hlut okkar Suðurnesjamanna. Þær væntingar eru hinsvegar orðin að langvarandi vonbrigðum.
 
Það þarf breiða þverpólitíska afstöðu með Reykjanesinu, en ekki sundraða duglausa þingmenn sem hafa hingað til verið tilbúnir að fórna hag svæðisins þegar kemur að því að skipta kökunni jafnt. 
 
Jasmina Crnac og Arnbjörn Ólafsson
skipa fyrstu tvö sæti Bjartrar framtíðar í Suðurkjördæmi.
Þau ætla sér að skipta kökunni jafnt og vinna fyrir Reykjanesið.
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024