Það er svalt að vera upplýstur
Nú er að koma sá tími ársins þar sem dagsbirtunnar nýtur sem minnst og erfitt getur verið að greina svörtu fötin okkar sem við flest klæðumst á þessum árstíma. Við vitum nú öll af þessu litla gagnsama öryggistæki sem heitir endurskinsmerki og er gætt þeim eiginleika að við sjáumst mikið fyrr í myrkrinu, Þau eru til í ýmsum útgáfum, lítil og stór, til að hengja utan á okkur, til að líma á flíkur og til að klæða okkur í. Einnig er til úrval af þessum mikilvægu öryggistækjum á dýrin okkar.
Á heimasíðu Samgöngustofu eru ýmsar upplýsingar um endurskinsmerki og m.a. er þar sú staðreynd að ökumaður getur greint þann sem er með endurskinmerki í um 125 metra fjarlægð meðan að sá sem er ekki með endurskinsmerki sést varla fyrr en keyrt er fram hjá honum og sést það vel hér.
Slysavarnadeildin Dagbjörg í Reykjanesbæ hvetur bæjarbúa til að vera duglega að nota þetta litla öryggistæki sem er svo ótrúlega áhrifamikið.
Annað myndband sem fjallar um nauðsyn endurskinsmerkja er frá krökkunum í félagsmiðstöðinni Tróju á Akureyri sem heitir „Það er svalt að vera upplýstur“ og er skemmtilega unnið með athyglisverðum áherslum á endurskinsmerkin.
Sagan af þessu myndbandi er að félagarnir í Slysavarnadeild Akureyrar vildu halda upp á 80 ára afmæli sitt á einhvern máta sem skilaði einhverju til slysavarna í samfélaginu og fóru því í heimsókn í félagsmiðstöðina og ræddu við krakkana þar um þetta efni og í framhaldinu fengu krakkarnir þá hugmynd að búa til myndband um endurskinsmerki og tókst þeim mjög vel upp.