Það er okkar að velja í hvoru liðinu við erum
Hvernig gengur, er nóg að gera? Svörin voru í takt við uppganginn. Flestir höfðu meira en nóg að gera og við sáum varla fram úr verkefnunum. Við hrunið hægðist á og mörg okkar þurftum að endurskoða störf okkar og þann hátt er við lifðum á áður. Þetta átti við í þjóðfélaginu öllu og flest okkar áttuðum við okkur á að um annað var ekki að ræða. Hér höfðu orðið hamfarir skapaðar af mannavöldum undir merkjum frjálshyggjunnar. Ríkissjóður tæmdist og harkalega var vegið að velferð fjölskyldna landsins.
Eftirleikurinn hefur verið þungur, greiðslugeta heimilanna minnkað um leið og þeim hefur að miklu leyti verið ætlað að standa við þá fjármálasamninga sem gerðir voru undir öðrum aðstæðum. Flest höfum við reynt, sumum hefur tekist að gera líf sitt bærilegt, en öðrum gengur ver og eiga erfitt með að sjá tilganginn í þessu öllu saman. Byrðarnar hafa verið þungar, og enn eru óleystir endar sem þarf að leysa. Mestu skiptir þar að sanngirnin nái jafnt fram að ganga svo venjulegt launafólk sjái fram á bjartari daga í takt við aukin atvinnutækifæri. Til þess að svo megi verða þarf að ríkja sameiginlegur skilningur á því hvert vandamálið er og lausnirnar um leið.
Mörgum okkar þykir hægt miða og sýnin á vandamálið ólík. Enn er boðið upp á sjálftöku í anda áranna fyrir hrun. Inn í samninga stórfyrirtækja sem fengið hafa milljarða afskrifaða af skuldum sínum við lífeyrisjóði landsmanna er enn verið að setja kaupréttarsamninga sem tryggja stjórnendunum þeirra milljónahagnað við hverja breytingu á virði fyrirtækjanna.
Liðið sem flest hefur haft á hornum sér frá hruni, og séð ofsjónum yfir hverri þeirri breytingu sem miðað hefur að jöfnuði þyngir nú róðurinn og vill færa allt í gamla horfið.
Fjármálagerningar í nafni ábyrgra viðskiptahátta, þar sem uppsagnir hæfs starfsfólks eru óumflýjanlegar af hagkvæmisástæðum eru nú kynntar með bros á vör. Þeir vilja stækka á kostnað þeirra sem gerðu tækifærið að raunveruleika. Stórmannlega gert. Þar eru á ferðinni óskadrengir íslenskrar þjóðar.
Baráttan um Ísland er í fullum gangi. Baráttan um hvort við ætlum að lifa í samfélagi fjármálafla sem svífast einskis þegar að því kemur að skara eld að eigin köku, eða samfélagi sem nýtir auðlindir sínar í sameiginlegri þágu. Það skiptir máli þegar forsætisráðherra þjóðarinnar segir að nú sé komin tími til aðgerða. Þar er ekki um að ræða einhvern formann einhvers stjórnmálaflokks sem enga vigt hefur, eins og sumir virðast halda.
Það hefur þurft mikið langlundargeð og bjartsýni til að ganga í gegnum þær hremmingar sem þjóðin hefur þurft að þola frá hruni. Það þarf að uppræta þá siðblindu sem menn í efstu lögum viðskiptalífsins virðast telja eðlilegan þátt í starfsumhverfi sínu á meðan heimili landsins borga reikninga hrunsins. Hér verður að rísa upp þjófélag þar sem börnin okkar og barnabörn geta gengið að því sem vísu að velferð allra, jafnrétti og bræðralag eru höfuðstefin sem lifað er eftir. Það er okkar að velja í hvoru liðinu við erum.
Með bestu kveðju
Hannes Friðriksson