Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Það er leikur að læra
  • Það er leikur að læra
    Halldóra Hreinsdóttir.
Þriðjudagur 13. maí 2014 kl. 10:30

Það er leikur að læra

– Halldóra Hreinsdóttir skrifar

…leikur sá er mér kær. Flestir krakkar eru fróðleiksfúsir og foreldrum finnst mikilvægt að börnin þeirra hljóti góða menntun. En fyrirkomulag menntunar og samspil þess við fjölskyldulífið er það sem ég hef skoðað talsvert undanfarin ár. Samfélagið er að þróast. Báðir foreldrar vinna oft utan heimilis langa vinnudaga og ömmur og afar eru ekki endilega tiltæk til að gæta barna. Við í Reykjanesbæ þurfum að bregðast við og þróa fyrirkomulag sem hentar nútímafjölskyldunni og auka þannig lífsgæði íbúa í bænum.
 
Enginn er eyland
Samvera foreldra og barna er mjög mikilvæg eins og flestir vita og hefur mikið forvarnargildi. Foreldrar þurfa sumir að vinna mikið til að ná endum saman og því er oft erfitt að finna lausan tíma til að eiga samverustund. Hið sama gildir um ýmsa viðburði í skólanum sem foreldrum er boðið á. Það skiptir börn máli að foreldrar eða aðrir aðstandendur fari með þeim þegar um slíka viðburði er að ræða en það er oft ekki mögulegt vegna vinnu. Það er mín skoðun að foreldrar sem hafa tíma, séu vakandi fyrir slíku og bjóðist þá til að fara með þau börn þannig að þau séu ekki ein. 
 
Við erum jú öll hluti af samfélagi og ávallt betri sem heild. 
 
Úlfatíminn og heimanámið
Til að foreldrar geti átt fleiri samverustundir með barni sínu þarf eitthvað að breytast í samfélaginu og ein leiðin er að koma heimavinnu barnanna í skólana. Það væri einnig framfaraskref til að jafna aðstöðumun barna því sum börn hafa erfiðar heimilisaðstæður og geta ekki treyst á aðstoð við námið þar. Reykjanesbær þyrfti að sjá til þess að nemendur geti klárað heimavinnuna í skólanum með aðstoð. Það er mjög erfitt fyrir bæði foreldra og börn að koma heim eftir langan vinnu-/skóladag og þurfa þá að læra heima. Allir orðnir þreyttir og svangir og á sama tíma þarf að útbúa kvöldmat og koma yngstu börnunum í rúmið. 
 
Of mikið álag
Fáir fullorðnir myndu sætta sig við að vinna fulla vinnu ásamt aukavinnu á kvöldin og flestar helgar. Það skýtur því skökku við að fara fram á slíkt við börnin okkar. Við þurfum að koma til móts við það og aðlaga okkur að breyttum aðstæðum. Við megum ekki gleyma börnunum. Börnin eru okkar framtíð.
 
Halldóra Hreinsdóttir,
viðskiptafræðingur, skipar 2. sæti lista Framsóknar í Reykjanesbæ og er formaður foreldrafélags Akurskóla
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024