Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Það er gott að búa í Reykjanesbæ
Föstudagur 30. maí 2008 kl. 09:36

Það er gott að búa í Reykjanesbæ

Þrátt fyrir ástandið í þjóðfélaginu þá er margt gott að gerast hér í Reykjanesbæ. Enda hefur bærinn fríkkað mikið á undanförnum fjórum árum, því mikið hefur verið byggt af glæsilegum húsum, og framkvæmt til fegrunar bæjarins. Svo er bærinn að verða vinsæll staður að búa á, og hingað kemur barnafólk úr höfuðborginni vegna þess að hér eru góðir skólar og dagheimili og íbúðaverð stillt í hóf.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þetta er tákn um stórhug og framfarir sem nauðsynlegar eru ef bæjarfélög eiga að þrífast. Og ef fer sem horfir með fólksfjölgun hér, þá ætti ekki að vera neitt vandamál að selja þær íbúðir, sem búið er að byggja og eru í byggingu, að ég tali nú ekki um þegar álverið kemur í Helguvík.

Um náttúrufegurðina hér eru skiptar skoðanir. Sumum finnst hér bara vera hraun og grjót, en aðrir sjá fegurð í öllu hér, hvort sem fjallahringurinn er skoðaður eða hraunið gengið og er ég einn af þeim. En ég á mér þó einn uppáhaldsstað, en það er smábátahöfnin við Bjargið. Þar kvikna oft góðar minningar, frá því að ég var ungur og axlaði sjópokann. Og eitt sinn var ég þar að láta hið óréttláta kvótakerfi, með sölu og leigu á þjóðareigninni, fara í taugarnar á mér, þegar höfnin var full af bátum sem ekki gátu róið til fiskjar vegna kvótaleysis í dýrðarinnar koppalogninu.

Þá varð til ljóðið Að sigla.

Í dag skín sólin
sæl á hafið lygnt
og seiðir mig
er þráir skip
að sigla á gjöful mið

en þar sem ég
á ekki kvóta né krónur
að kaupa fyrir hafsins gull
þá verð ég víst
að láta mig dreyma
að haldi heim
með hlaðið
að skammdekki skip.

Upp af höfninni er svo veitingahúsið Kaffi Duus. Þangað er gott að koma, og að setjast niður og horfa út um gluggann niður að höfninni og þó sérlega þegar höfnin iðar af lífi og trillukarlarnir landa þeim gula sem þeir gátu leigt. Þetta gefur staðnum sjarma, og ekki nóg með það, að gestir komi til að njóta útsýnisins, heldur og líka til að borða sérdeilis lystugan og vel útilátinn mat sem úrvalskokkar töfra á diskana.

Og þrátt fyrir það að eitthvað óréttlæti fari í taugarnar á manni. Þá er betra að líta björtum augum á framtíðina og að þakka fyrir það sem við höfum. Og biðja Guð um að réttlætið nái fram að ganga. Þá munum við öll komast að því, að það er og verður gott að búa í Reykjanesbæ.

Hafsteinn Engilbertsson.
Heiðarhvammi 5
421-7054 897- 8854