„Það er eins gott að velja vel“
Nú eru að koma kosningar til Alþingis 2017. Stjórnmálaflokkar og frambjóðendur þeirra fara um kjördæmið og eiga atvinnuviðtal við kjósendur. Við erum að velja okkur fulltrúa til að stjórna landinu fyrir okkur næstu fjögur árin svo það er eins gott að velja vel. Þessar kosningar koma alveg eins óvænt og síðustu kosningar, það má ekki gleymast að það er allt vegna þess að eitthvað óviðeigandi, sem var falið fyrir okkur almenningi og reynt að troða niður í undirdjúpin, flaut upp á yfirborðið.
Við íbúar Reykjanesbæjar höfum einnig þurft að upplifa slíka leyndarhyggju hvað varðar starfsleyfi United Silicon og það stóriðjubrölt sem á sér stað í Helguvík. En í þessari grein minni ætla ég ekki mikið að tala um það mál heldur um stöðu okkar hér í bæjarfélaginu. Um það afskiptaleysi og fjársvelti sem við höfum þurft að þola í samhengi við þær kosningar sem fram undan eru. Bæjarfélagið okkar rambar á barmi gjaldþrots og þar vega hæst skuldir út af höfninni í Helguvík. Heilsugæslan okkar hér í Reykjanesbæ er fjársvelt og það er bara merkilegt að það skuli vera hægt að halda úti þessari lágmarksþjónustu hér á svæðinu. Við erum 22 þúsund manns, sem eru um 6,95% þjóðarinnar á Suðurnesjum, og við erum með eina heilsugæslu og eitt útibú í Grindavík fyrir allan þennan fjölda. Það þarf svo sannarlega að auka við fjármagn í heilsugæsluna og sjúkrahúsið hér á Suðurnesjum. Ekki má nú gleyma í þessari upptalningu minni um þann húsnæðisvanda sem fólk er að glíma við hér á Suðurnesjum. Fólk er nánast á götunni eða þarf að flytja inn á ættingja og vini. Ríkið tók við svæðinu á Ásbrú af Varnarliðinu og stofnaði Kadeco til að hafa umsjón með eignum sínum. Þarna skyldi ríkið okkur eftir með svæði sem svarar heilu þorpi úti á landi til að þjónusta en engan ágóða af því húsnæði sem selt var.
Ég segi að við höfum verið vanrækt af ríkinu og ekki fengið neinar fyrirgreiðslur, frekar er skorið niður og þá í heilbrigðismálum, skólamálum, vegamálum, hafnarmálum o.s.frv. Þegar við bendum á þessa þætti er svarið alltaf það sama: „Þið hafið flugvöllinn, náið í tekjurnar þar“.
Nú kem ég aftur að upphafspunktinum. Það eru að koma kosningar og þegar frambjóðendur allra flokka koma og eiga við ykkur atvinnusamtal þá eigið þið að spyrja um alla þessa þætti og hvort þeir ætli að aðstoða okkur við að koma Suðurnesjum á réttan kjöl með því að rétta okkur hjálparhönd. Sumir vilja hneykslast og tala um kjördæmapot en hvað eru til dæmis Vaðlaheiðargöng annað en kjördæmapot? Ef við spyrjum, ef við þrýstum á þá munu raddir okkar heyrast. Við eigum ekki að þurfa að sækja okkar grunnþjónustu, svo sem lækna og sérfræðiþjónustu, til Reykjavíkur, né borga vegatolla á Reykjanesbraut. Auðvitað eru margir orðnir leiðir á loforðum sem svo oft eru svikin eftir kosningar en við megum ekki gefast upp, við verðum að hafa þrautseigju. Í ár eru það um sjö flokkar sem valið stendur um og bjóða væntanlega fram í Suðurkjördæmi. Nú er um að gera að skoða stefnur flokkanna, hlusta á frambjóðendur í sjónvarpi og útvarpi, mynda sér sína skoðun og vera upplýstur í sinni ákvörðunartöku þegar inn í kjörklefann kemur. En umfram allt að mæta á kjörstað og kjósa. Þú átt þann rétt og þitt atkvæði skiptir máli.
Margrét S Þórólfsdóttir