Það er af sem áður var
Guðbrandur Einarsson skrifar.
Fyrrverandi bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Árni Sigfússon, ætlar sér greinilega að taka nýtt hlutverk sitt sem minnihlutafulltrúi í bæjarstjórn Reykjanesbæjar alvarlega. Það kemur vel í ljós í þeim ásökunum sem hann setur fram á hendur núverandi meirihluta í sinni fyrstu grein sem hann skrifar eftir afhroð Sjálfstæðisflokksins í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Það er gott að hafa prinsip og reglur á hreinu.
Verra er hins vegar að skoðanir Árna Sigfússonar virðast breytast eftir því hvort hann situr í meirihluta eða minnihluta. Hann ásakar okkur í nýjum meirihluta um að hafa brotið sveitarstjórnarlög með því skipa þrjár konur sem aðalfulltrúa í fræðsluráð Reykjanesbæjar og vitnar í sveitarstjórnarlög og segir m.a í greininni:
„Þar var framboðum gert að tryggja að þar sem tveir fulltrúar skyldu skipaðir í fagnefnd skyldu þeir vera að báðum kynjum og alltaf bæði kyn ef þrír væru skipaðir. Þessa nýju reglu braut hinn nýi meirihluti, m.a. í fræðsluráði.“
Þegar það kom í ljós að þau þrjú framboð sem standa að núverandi meirihluta höfðu öll sett fram kvenkynsfulltrúa í fræðsluráð var strax ákveðið að gera breytingu á þessu og mun einn kvenkyns nefndarmaður víkja sæti til þess að ákvæðum laga sé fullnægt.
Árna er greinilega umhugað um hag Framsóknar þessa dagana. Það er hins vegar ágætt að rifja upp söguna í þessu tilviki. Þegar Árni Sigfússon bauð sig fram fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjanesbæ í fyrsta sinn árið 2002 var svipuð staða uppi. Sjálfstæðisflokkurinn vann hreinan meirihluta í þeim kosningum og Samfylking og Framsóknarflokkurinn sátu í minnihluta. Skipting nefnda var með sama hætti og nú er, þ.e. meirihluti (Sjálfstæðisflokkurinn) fékk þrjá menn í nefndum og minnihluti (Samfylking) fékk tvö nefndarsæti líkt og Sjálfstæðisflokkurinn nú. Framsóknarflokkurinn sem unnið hafði einn bæjarfulltrúa fékk samþykkta áheyrn í bæjarráði líkt og nú og engan fulltrúa í nefndum.
Ég minnist þess ekki sem nýkjörinn bæjarfulltrúi á þeim tíma að Árni Sigfússon hafi haft áhyggjur af stöðu Framsóknarflokksins þá, þó að hann virðist gera það nú. Það skiptir greinilega máli hvorum megin borðs Árni Sigfússon situr.
Guðbrandur Einarsson, oddviti Beinnar leiðar.