Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Það býr kraftur í Suðurnesjamönnum
Fimmtudagur 18. janúar 2007 kl. 17:09

Það býr kraftur í Suðurnesjamönnum

Framsóknarmenn í Suðurkjördæmi efna nú til prófkjörs á laugardaginn meðal flokksbundinna framsóknarmanna.


Ég leiddi lista flokksins hér í kjördæminu í síðustu kosningum og hef verið eini ráðherra þess kjördæmis og því komið að öllum þeim málum sem Suðurnesin varðar bæði í ríkisstjórn og á Alþingi. Ég hef haft gaman af að kynnast Suðurnesjamönnum og þeim mikla krafti sem í þeim býr. 


Það blasa mörg ný tækifæri við á Suðurnesjum. Keflavíkurflugvöllur er forstofa Íslands héðan verður Ísland varið og hér ber að byggja upp þá starfsemi sem nauðsynleg er vegna varna landsins eftir brottför Bandaríkjahers. Þá ber að reka miðstöð alls björgunarstarfs frá Suðurnesjum, en hér er allur búnaður til staðar sem Landhelgisgæslan þarf fyrir sína mikilvægu starfsemi.
Ég tel að Suðurnesin eigi gnægð nýrra tækifæra í dag. Alþjóðaflugvöllurinn, lækkun fargjalda og sú gríðarlega aukning í komu ferðamanna til landsins skiptir miklu máli hér. Skipið Íslendingur og veröld sögunnar, sem og ferðaþjónustan sem verið er að byggja upp verður í atvinnusköpun á við álver. Almenningur, skólabörnin okkar og erlendir ferðamenn munu í stórum stíl staldra við og heimsækja þessa miklu Íslandsveröld.


Ferðatengd heilbrigðisþjónusta er stórt tækifæri fyrir Suðurnesin. Ísland er þekkt fyrir frábæra lækna og mikla getu í forvörnum og heilbrigðisþjónustu. Auk þess er það þekkt fyrir heilsulindir við Bláa lónið og Heilsustofnunina í Hveragerði. Í ljósi þess eiga íslenskir læknar og heilbrigðisþjónustan að taka að sér forvarnir og læknisaðgerðir sem fylgir endurþjálfun á ýmsum sviðum. Má þar nefna húðsjúkdóma, hjartaaðgerðir og fleiru sem við höfum náð slíkum tökum á að við erum með þeim færustu í veröldinni í dag.


Ágætu Suðurnesjamenn. Ég hef unnið að málefnum ykkar og allra landsmanna sem forystumaður í Framsóknarflokknum. Erindi okkar framsóknarmanna í íslenskum stjórnmálum er mikilvægara en nokkru sinni fyrr. Það er fyrir öllu að tryggja atvinnu fyrir alla landsmenn og hafa velferð hvers einasta manns að leiðarljósi við stjórn landsins.
Ég hvet alla flokksbundna framsóknarmenn á Suðurnesjum til þátttöku í prófkjörinu á laugardaginn og bið um stuðning í 1. sætið.

Guðni Ágústsson
Varaformaður Framsóknar-flokksins og ráðherra

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024