Tengsl við samfélagið
Það er ábyrgðarhlutur að taka þátt í samfélagi og ábyrgðin er meiri eftir því sem áhrif þín á samfélagið eru meiri. Ég hef í störfum mínum sem alþingismaður lagt mikið upp úr því að hafa góð og mikil tengsl við fólkið í kjördæminu, fara um og sjá aðstæður, læra á áskoranirnar og vera þannig þátttakandi í því samfélagi sem ég þjóna á Alþingi. Til að geta veitt sem besta þjónustu og sýnt samfélagslega ábyrgð þarf maður að þekkja hjartslátt samfélagsins.
Það er einmitt út af því sem við þurfum að hafa yfirmenn ríkisstofnana búsetta heima í héraði, ekki bara embættið þeirra. Við höfum mörg dæmi sem sanna þetta. Þá vil ég líka höfða til ábyrgðar stórfyrirtækja sem reka stóra vinnustaði í kjördæminu og hafa þar af leiðandi gríðarlega mikil áhrif á þau samfélög sem þau starfa í. Slík fyrirtæki verða að þekkja samfélagið og bera ábyrgð gagnvart því. Það gera þau ekki með því að byggja upp höfuðstöðvar og hafa yfirstjórn fyrir utan samfélagið sem þau starfa í. Það er því galið að sjá ISAVIA hafa höfuðstöðvar á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega þegar það er þátttakandi í þróun og markaðssetningu á flugvallaborg á sínu stærsta starfssvæði. Þá eru einkafyrirtækin einnig að byggja upp höfuðstöðvar fjarri sínu samstarfssamfélagi.
Ég hvet því opinber ríkisfyrirtæki til að ganga á undan með góðu fordæmi og skora á einkaaðilana að fylgja eftir um land allt.