Tenging skóla við atvinnulífið skapar ný verðmæti
Íslenski sjávarklasinn á Suðurnesjum: Ný tækifæri í verðmætasköpun.
Samfélög sem byggja á samstarfi eru líklegri til að ná hámarks árangri. Þeir sem eru tilbúnir til að leggjast á eitt og sameina mismunandi sérfræðiþekkingu og reynslu sín á milli í sameiginlegum markmiðum verða sterkari sem ein heild. Uppskeran verður mun skilvirkari og skalanlegri. Oft eitthvað sem engum hefði órað fyrir í upphafi verður til, því sköpunarmátturinn sem myndast við samvinnu er óútreiknanlegur. Sömu lögmál gilda fyrir fyrirtæki.
Síðla árs 2013 kom Íslenski sjávarklasinn að því að efla samstarf fyrirtækja í sjávarútvegi og tengdum greinum í samvinnu við Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum sem eitt af verkefnum Sóknaráætlunar. Sjávarklasinn á Suðurnesjum var settur á laggirnar með klasahugmyndafræðina að leiðarljósi sem gengur út á að tengja betur saman fólk, fyrirtæki og stofnanir, þ.e. stuðla að samstarfi og ýta undir nýsköpun þeirra á milli. Markmiðið er að nýta betur þau tækifæri sem eru til staðar, byggja upp ný samstarfsverkefni og auka verðmæti, t.d. með markvissari nýtingu íslenskra sjávarafurða, bættum vinnuferlum og nútímatækni.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar. Menntateymi Sjávarklasans á Suðurnesjum var sett á laggirnar og er skipað fulltrúum frá Keili, Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Fisktækniskóla Íslands, Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, Þekkingarsetri Suðurnesja og einum fulltrúa frá fyrirtækjum á svæðinu. Hlutverk teymisins er m.a. að heimsækja fyrirtæki í sjávarútvegi til þess að kynna sér starfsemi þeirra og efla tengslin á milli atvinnulífs og fyrrgreindra stofnana. Út frá þessum heimsóknum hefur vaknað fjöldi áhugaverða hugmynda. Mörgum þeirra hefur nú verið hrint í framkvæmd með samvinnu nemenda skólanna og fyrirtækjanna sjálfra. Neðangreind eru dæmi um verkefni sem eiga öll það sameiginlegt að hafa hlotið styrk frá Vaxtarsamningi Suðurnesja og unnið hefur verið að á síðastliðnum 18 mánuðum:
• Aukin sjálfvirkni og bætt nýting hráefnis í bláskelsvinnslunni hjá Íslandsskel í samstarfi við tæknifræðinám Keilis og Háskóla Íslands. Nemendur tæknifræðinámsins hafa m.a. komist að því að nýir og jafnvel meiri tekjumöguleikar felast í því að vinna hráefnið á annan máta sem verður skoðað enn frekar í lokaverkefni á þessari önn.
• Codland hefur verið leiðandi í þónokkrum sprotaverkefnum á svæðinu í fullnýtingu sjávarafurða, m.a. við að hreinsa lífræn efni eins og kalk úr fiskbeinum og þá er vinnsla í gangi við uppbyggingu á kollagen verksmiðju. Codland, Þekkingarsetur Suðurnesja og Keilir hafa einnig undirritað sín á milli samstarfssamning sem styrkir enn frekar samstarfið sem mun eiga sér stað á milli þessara öflugu aðila.
• Breki harðfiskflögur í samstarfi við Fiskland. Breki er ný lögun og áferð á harðfiski sem minnir á hefðbundið snakk og stefnt er með á markað hér á landi í sumar.
• Sjávarklasinn vinnur með nemendahópi úr Háskóla Íslands og fjölda fyrirtækja í sjávarútvegi og tengdum greinum að því að gera markaðskönnun á því hvort hagkvæmt sé fyrir þau að úthýsa pökkunar-, merkingar-, íblöndunar- og/eða áfyllingarferlinu í einni sameiginlegri verksmiðju á Suðurnesjunum. Fyrirtæki sem vilja koma að borðinu í því verkefni eru vinsamlegast beðin um að hafa samband við undirritaðan.
• Unnið er að skipulagningu Fish & Fun matar-, menningar- og náttúruhátíðar á Suðurnesjunum í samstarfi á milli Fisktækniskólans og Keilis undir merkjum Travice.
Önnur verkefni eru t.d. fjarvigtun á hafnarvogum, sjálfvirk nálavindilvél og ný varmaskiptatækni. Á heildina litið er á annan tug nýrra verkefna að ræða sem hefur verið ýtt úr vör fyrir tilstilli menntateymis Sjávarklasans á Suðurnesjum. Ávinningurinn sem hlýst er ótvíræður. Nemendur hljóta gagnlega reynslu og lærdóm í því að sinna raunverulegum og hagnýtum verkefnum. Fyrirtækin fá inn utanaðkomandi aðila með aðra sýn sem leiðir oft til þess að rykið er dustað af hugmyndum sem hafa legið í dvala og jafnvel nýjum verkefnum er komið á koppinn. Þetta leiðir til aukinnar þekkingar sem er deilt á báða bóga, og í bestu tilfellum nýjum verðmætum sem mögulega fengju aldrei að sjá dagsljósið nema fyrir tilstilli þeirrar tengingar sem að Íslenski sjávarklasinn hefur komið á.
Aukin nýting á þeirri sérstöðu okkar hér á landi sem felst m.a. í stuttum boðleiðum í sameiginlegri hagsmunavörslu býður upp á ný tækifæri í verðmætasköpun. Þessi tækifæri felast í því að hlusta á ólíkar raddir og deila reynslu. Með samnýtingu tökum við höndum saman og róum í takt út á miðin sem skilar bættu búi fyrir land og þjóð.
Kristinn Jón Ólafsson
MSc í nýsköpun og frumkvöðlafræði, BI Osló í Noregi
Höfundur starfar fyrir Íslenska sjávarklasann