Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Tekur í fyrsta sinn sæti á alþingi í næstu viku
Miðvikudagur 8. október 2003 kl. 20:01

Tekur í fyrsta sinn sæti á alþingi í næstu viku

Brynja Magnúsdóttir varaþingmaður Samfylkingar í Suðurkjördæmi mun taka sæti í fyrsta sinn á alþingi þann 12. október nk. þegar Jón Gunnarsson heldur til New York þar sem hann mun sitja allsherjarþing Sameinuðu Þjóðanna fyrir hönd Samfylkingarinnar. Brynja segist vera mjög spennt fyrir því að setjast á alþingi. „Þetta er meira spennandi en ógnvekjandi. Ég náttúrulega stefndi að því að komast á þing þannig að ég er sátt við að taka sæti þar öðru hverju.“ Brynja segir að það sé mikið af ungu fólki sem eru svokallaðir sófapólitíkusar. „Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á pólitík og var einmitt einn af þessum sófapólitíkusum. Ég vildi hætta að verða þannig og láta rödd mína heyrast og það er best að láta hana heyrast á alþingi,“ segir Brynja en hún býst við því að fyrstu dagarnir fari í að kynna sér reglur þingsins. „Reglur alþingis eru fjölmargar, bæði skrifaðar og óskrifaðar. Ég á örugglega eftir að njóta leiðsagnar mér reynslumeira fólks um það hvaða reglur eru í gangi.“

Brynja starfar sem sjúkraliði og hún segir að þau málefni séu henni ofarlega í huga. „Ég hef mikinn áhuga á málefnum fatlaðra og ungs fólks. Það eru einmitt hóparnir sem hafa ekki svo marga málssvara og ég vil tala fyrir þetta fólk. Síðari vikan í þinginu er reyndar kjördæmavika þar sem þingmenn fara út í kjördæmin og tala við fólkið. Ég hlakka mikið til þess að heyra álit íbúanna á hinum ýmsu málefnum er snerta kjördæmið. Þarna er maður náttúrulega að fara til að heyra skoðanir fólksins, en ekki til að veiða atkvæði,“ segir Brynja brosandi.

Brynja er varaþingmaður fyrir fjóra þingmenn Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi og án efa á hún eftir að taka sæti á alþingi nokkuð oft á kjörtímabilinu.

VF-ljósmynd: Brynja Magnúsdóttir varaþingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024