Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Tekur áskoruninni
Föstudagur 3. mars 2006 kl. 11:27

Tekur áskoruninni

Séra Jóna Kristín Þorvaldsdóttir.

Eins og lesendur Víkurfrétta hafa tekið eftir mun séra Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, sóknarprestur Grindvíkinga skipa fyrsta sæti á lista Samfylkingarinnar í komandi bæjarstjórnarkosningum. Jafnframt mun hún fara í ársleyfi frá preststörfum á hausti komanda en hún hefur átt afar farsælt starf sem prestur Grindvíkinga frá því að hún tók við af sr.Erni Bárði Jónssyni árið 1990. Víkurfréttum lék forvitni á að vita um ástæður þessara umskipta í lífi séra Jónu og hittu hana að máli á dögunum.

Hvernig kom það til að þú ákvaðst að gefa kost á þér á framboðslista Samfylkingarinnar hér í Grindavík ?
Ég hef alltaf látið mig samfélagið hér varða og yfirleitt ekki skorast undan því að taka þátt í mannlífinu. Lífið allt er straumur af þjónustu. Nú ætla ég að taka þeirri áskorun að skipta yfir úr prestsþjónustunni í annars konar þjónustu við samfélagið. Pólítíkin er hliðstæð að mörgu leiti, þó á öðru sviði sé og til forystustarfa á þeim vettvangi ræðst fólk úr öllum stéttum og hvarvetna úr atvinnugreinum. Ég tel að minn undirbúningur til þess verkefnis sé ágætur og met stöðuna þannig að ég sé áfram að þjóna sama samfélaginu en á öðrum forsendum.

Hvaða málefni munt þú leggja áherslu á ?
Nú stendur yfir málefnavinna hjá okkur. Við viljum vanda til þeirrar vinnu og það eru fjölmörg spennandi og verðug verkefni við að glíma og ég hlakka til að takast á við þau og fylgja þeim vel eftir. Pólítísk umræða á að vera málefnaleg, því hún byggir á málaflokkum sem varða íbúana alla á öllum aldri og þá byggðina í heild sinni. Ég mun leitast við að gæta hagsmuna bæjarbúa með góðu samstarfsfólki. Við megum svo aldrei gleyma því að enda þótt áherslur séu mismunandi þá erum við öll, hvar í flokki sem við stöndum, að vinna fyrir sama bæjarfélagið og það eigum við að gera málefnalega og af heilindum. Til þess hef ég fullann hug.

Verður þú bæjarstjóraefni Samfylkingarinnar ?
Ég er oddviti listans og leiði hann ásamt þeim sem þar eru og hafa staðið í forsvari.
Það er bæjarstjóri í Grindavík, sem hefur átt mjög gott samstarf við bæjarstjórnina.

Hvernig svarar þú þeirri gagnrýni að prestar eigi ekki að fara í pólitík ?
Hvað á fólk við? Spyr ég á móti! Er prestur þá utan samfélags, eða ber ég ekki sömu skyldur og hver annar þegn í bæjarlífinu? – Fólk á auðvitað að koma að bæjarmálum sem víðast að úr samfélaginu með ólíkar áherslur. Hvert sem starf mitt er, er ég líka þegn í þessu samfélagi, á mitt heimili, börn smá og stór og tek þátt í lífinu hér eins og hver annar bæjarbúi.
Prestur á að vera mannasættir, heyri ég t.d. sagt sem rök fyrir því að ég eigi ekki að blanda mér í bæjarmálin. Ég get ekki séð að ég þurfi að breytast í eitthvað annað en ég er og hef hingað til staðið fyrir varðandi trú og lífsgildi. Og ég lít alls ekki þannig á að hið ágæta fólk sem skipar sér á lista hinna flokkanna séu persónulegir andstæðingar mínir eða óvildarmenn. Ég vænti góðra samskipta við allt þetta fólk og á ekki von á öðru.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024