Tekjutengdar sóttvarnarbætur
Staða sveitarfélaga á tímum Covid er æði misjöfn. Mörg sveitarfélög hafa náð að halda sjó og tekjufall margra þeirra er lítið, á meðan önnur sveitarfélög, þar sem fólk byggir afkomu sína á ferðaþjónustu, eiga í verulegum vandræðum. Ekki bara að tekjur hafi dregist saman, heldur hefur kostnaður vegna faraldursins bæst þar við. Margir íbúar búa við skertar tekjur vegna atvinnumissis og við slíkar aðstæður er mikilvægt að opinberir aðilar stígi inn og tryggi afkomu fólks.
Mikið atvinnuleysi
Það liggur fyrir að atvinnuleysi í Reykjanesbæ er komið yfir 20% og mælist atvinnuleysi meðal kvenna nú yfir 23%. Það er við slíkar aðstæður nauðsynlegt að fólki sé tryggðar viðundandi tryggingar til þess að mæta slíku áfalli.
Margir íbúar Suðurnesja misstu vinnuna þegar Wow Air féll og hafa enn ekki fengið vinnu. Því til viðbótar bætist þetta stóra áfall sem faraldurinn hefur valdið og fjöldi einstaklinga hefur bæst við á atvinnuleysisskrána.
Tekjutenging atvinnuleysisbóta
Í mínum huga er besta leiðin sem hægt er að fara við þessar aðstæður, sú að tekjutengja atvinnuleysisbætur með einhverjum hætti. Ríkistjórn Íslands samþykkti í ágúst síðastliðinn að lengja tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta úr þremur mánuðum í sex.
Það dugar hvergi nærri til
Fjöldi einstaklinga hefur nú þegar nýtt þennan sex mánaða rétt sinn og færist nú á grunnbætur sem í dag eru tæpar 290 þúsund krónur miðað við 100% rétt.
Tímabundnar tekjutengdar sóttvarnarbætur
Hægt væri að lengja tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta tímabundið meðan þetta ástand varir og greiða einhvers konar stóttvarnarbætur. Nú hyllir undir að bóluefni komi á markað en það mun taka talsverðan tíma áður en eðlilegt ástand hefur skapast á ný í samfélaginu. Þar til að slíkt gerist er upplagt að greiða tímabundnar sóttvarnarbætur til þeirra sem hafa verið sviptir afkomuöryggi. Slíkt myndi tryggja fólki lífsviðurværi og sveitarfélögunum tekjur til þess halda úti þeirri þjónustu sem nauðsynleg er.
Guðbrandur Einarsson,
forseti bæjarstjórnar
Reykjanesbæjar.