Tekist á um félagslega íbúðakerfið
Til snarpra orðaskipta kom á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ á þriðjudag. Þar deildi Sveindís Valdimarsdóttir, fulltrúi Samfylkingar, harkalega á Fasteignir Reykjanesbæjar, einkahlutafélagið sem rekur félagslega íbúðakerfið í bænum og hvernig bæjaryfirvöld stæðu að þeim málum. Gekk hún svo langt að lýsa því yfir að félagslega íbúðakerfið í Reykjanesbæ væri dautt og kenndi meirihlutanum um það hvernig væri komið.
Síðan Fasteignir Reykjanesbæjar ehf. var komið á fót fyrir um 3 árum með þverpólistískri sátt í bæjarstjórn, hefur fyrirtækið verið rekið með 277 milljóna tapi. Er nú svo komið að eigið fé sem fyrirtækinu var falið í upphafi, alls 100 milljónir, er uppurið.
Georg Brynjarsson, stjórnarformaður fyrirtækisins, sagði í samtali við Víkurfréttir að það eigi sér allt eðlilegar skýringar enda hafi verið kappkostað síðustu ár að gera reksturinn sýnilegri og sjá hvað reksturinn kostaði í raun. „Við gáfum okkur þennan tíma sem það tók höfuðstólinn að étast upp til að varpa ljósi á reksturinn og sjá hvar mætti hagræða. Þannig er það tap sem varð á rekstrinum á síðasta ári (innsk. alls 124 milljónir) síst meira en það hefur verið síðustu ár.”
Á fundi bæjarstjórnar sló Sveindís hnefanum í ræðuborðið hélt því fram að Fasteignir Reykjanesbæjar væri verst rekna fyrirtæki bæjarins og loks hefði steininn tekið úr að hennar mati þegar hún frétti að bæjarstjóri, Árni Sigfússon, hafi persónulega staðið í úthlutunum þegar það væri ekki hans hlutverk. Þá furðaði hún sig á því að bærinn hefði selt íbúðir á meðan að 97 umsóknir væru á biðlista eftir félagslegu húsnæði.
Böðvar Jónsson, Sjálfstæðisflokki steig í pontu á eftir Sveindísi benti á að sala íbúða hafi verið í samræmi við stefnu fyrirtækisins um að fækka óhagkvæmum og viðhaldsdýrum íbúðum, en á móti hafi komið fjölgun undanfarin ár með nýbyggingum á Framnesvegi, Þórustíg og Kirkjuvegi.
Guðbrandur Einarsson frá Samfylkingunni lýsti furðu sinni með hversu fáar úthlutanir hefðu verið í ár, eða einungis átta fram að síðustu mánaðarmótum. „Í fyrra fengu 42 úthlutað og þar áður voru það 55. Við höfum aldrei klárað að ræða það hvernig á að reka hlutafélagið, en það er staðreynd að fullt af fólki í bænum á erfitt og við þurfum að spyrja okkur hvort við eigum að hjálpa þeim eða ekki.”
Eftir það fékk Hjörtur Zakaríasson, framkvæmdastjóri félagsins og bæjarritari, að taka til máls til að svara spurningum bæjarfulltrúa. Sagði hann að engin ástæða væri til að æsa sig yfir málinu þar sem engin leynd væri yfir rekstrinum. Staðreyndin væri hins vegar sú að margir bæjarbuúar hefðu ekki ráð á því að leigja hjá félaginu þrátt fyrir að leigan á húsnæðinu væri afar lág að hans mati.
Þegar Árni Sigfússon kom í pontu frábauð hann sér allar aðdróttanir um að nokkuð óeðlilegt væri við að hann hafi haft milligöngu um útleigu á einni íbúð, enda hafi þar verið um að ræða neyðartilvik. „Ég greip ekki fram fyrir hendur húsnæðisfulltrúa heldur var um að ræða hjón með tvö börn sem þurftu nauðsynlega á húsnæði að halda, en vegna sumarleyfa gátu þau ekki fengið inni eftir hefðbundnum leiðum. Í samráði við húsnæðisfulltrúa hleyptum við þeim inn í íbúð sem stóð auð vegna þess að endurbótum á henni var ekki lokið. Ég er nokkuð stoltur af því að hafa gert þetta og myndi gera það aftur ef ég þyrfti þess með.”
Frekari umræða var um málefnið á fundinum þar sem greinlegt var að um grundvallar pólitíska spurningu var að ræða, þ.e. hversu umsvifamikið kerfið ætti að vera, en heyra mátti á ræðumönnum að frekari umræðu væri að vænta á næstu mánuðum. Víkurfréttir munu fylgjast vel með málinu og verða með ítarlegar umfjallanir á næstu vikum.