Tekið við svo vondu búi?
– röng framsetning á stöðu bæjarsjóðs
Ég verð seint þreyttur á því að fjalla um fjármál Reykjanesbæjar. Það eru margir hissa á þessari þráhyggju minni en ég lít bara þannig á að fjárhagsstoðir Reykjanesbæjar séu undirstaða alls annars og ef að þær halda ekki þá sekkur allt hitt. Það reynir einnig á mig þegar menn leyfa sér að fara léttúðlega með staðreyndir um fjárhag Reykjanesbæjar eins og mér fannst Árni Sigfússon gera þegar hann, á Beinni línu í DV, var spurður út í stórfellda eignasölu sem átt hefði sér stað þann tíma sem sjálfstæðismenn hafa verið einráðir hér í Reykjanesbæ.
Svar Árna var eftirfarandi:
„Mismunur á heildarskuldum og tekjum bæjarsjóðs (skuldahlutfall) var 270 % árið 2002 þegar ég tók við. Núna er skuldahlutfall bæjarsjóðið 248%. Eigið fé bæjarsjóðs (eignir umfram skuldur) árið 2002 var 3,8 milljarðar og 3 milljarðar í samstæðu. Um síðustu áramót, 2013, var eigið fé 6,9 milljarðar í bæjarsjóði og 7,5 milljarðar í samstæðu. Ég kýs að svara þessu svona því þetta er eðlilegi samanburðurinn. Þetta sýnir að við höfum aukið eignir á tímabilinu og til lítis að tala um þúsundir milljóna í sölu á minni vakt nema rætt sé um eignaaukningu á móti“
„Mismunur á heildarskuldum og tekjum bæjarsjóðs (skuldahlutfall) var 270 % árið 2002 þegar ég tók við. Núna er skuldahlutfall bæjarsjóðið 248%. Eigið fé bæjarsjóðs (eignir umfram skuldur) árið 2002 var 3,8 milljarðar og 3 milljarðar í samstæðu. Um síðustu áramót, 2013, var eigið fé 6,9 milljarðar í bæjarsjóði og 7,5 milljarðar í samstæðu. Ég kýs að svara þessu svona því þetta er eðlilegi samanburðurinn. Þetta sýnir að við höfum aukið eignir á tímabilinu og til lítis að tala um þúsundir milljóna í sölu á minni vakt nema rætt sé um eignaaukningu á móti“
Samstæðureikningur = bæjarsjóður, stofnanir og fyrirtæki í eigu bæjarins sem eru með sjálfstætt reikningshald s.s Reykjaneshöfn.
Í þessari töflu má sjá að Árni Sigússon fór rangt með tölur á Beinni línu, væntanlega til að fegra þá stöðu sem nú er í fjármálum Reykjanesbæjar. Eins og sjá má þá var skuldahlutall bæjarsjóðs Reykjanesbæjar 186% árið 2002 en ekki 270% eins og hann heldur fram. Skuldahlutfallið á samstæðunni er það ekki heldur eða 250%. Bæjarstjórinn fer rétt með töluna árið 2013, en ef sömu reglur hefðu gilt um skuldahlutfall árið 2013 og giltu árið 2002 þá væri skuldahlutfall Reykjanesbæjar 271% en ekki 248% eins og reglugerðin kveður á um.
Árni vill einnig nálgast þetta á annan hátt og bendir á að eigið fé hafði aukist, hafi hækkað úr 3,8 milljörðum í 7,5 milljarða.
Skoðum þetta þá aðeins út frá öðru sjónarmiði. Á þessum tíma hafa tekjur samstæðu Reykjanesbæjar hækkað um 344%. Eigið fé samstæðunnar hefur hins vegar aðeins aukist um 97% á þessum tíma. Það er einnig eftirtektarvert að velta fyrir sér þeirri staðreynd að árið 2002 áttum við eignir sem námu 91% af árstekjum. Nú eigum við eignir sem nema 50% af árstekjum sveitarfélagsins.
Það má nálgast tölulegar staðreyndir á ýmsan hátt og setja þær fram með ýmsum hætti. Það er hins nauðsynlegt að menn haldi sig þá við staðreyndir en séu ekki í hráskinnaleik með tölur til þess eins að fegra eigin verk og villa um fyrir íbúum. Spurning hvort að forveri Árna í stóli bæjarstjóra sé sáttur við að framlagning talna frá árinu 2002 sé með þessum hætti.
Með von um heiðarlega kosningabaráttu, íbúum Reykjanesbæjar til heilla.
Guðbrandur Einarsson
í framboði hjá Beinni leið.