Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Aðsent

Team Suðurnes
Föstudagur 12. október 2018 kl. 06:00

Team Suðurnes

Það gerist ekki oft að bæjarstjóri bæjarfélags hvetji bæjarbúa til að „djöflast nú í þingmönnum og gera þeim grein fyrir stöðunni“. Einmitt þetta gerir bæjarstjóri Reykjanesbæjar Kjartan Már Kjartansson í fésbókarfærslu þann 22. september síðastliðinn þar sem hann lýsir þeim raunveruleika sem við blasir þegar kemur að fjárveitingum ríkisins til þeirra verkefna sem ríkinu ber að sinna á Suðurnesjum. Þegar kemur að slíkum greinaskrifum þarf ég sjaldnast mikla hvatningu til.

Ríkisstjórn og fjármálaráðherra eru í sjálfu sér sama fyrirbærið og bæjarstjórn og fjármálastjóri bæjarfélags, bara í stærra samhengi. Skyldur þeirra allra eru að deila byrðunum jafnt og sanngjarnt. Það er öruggt að upp myndu rísa miklar deilur hér í bænum leyfði bæjarstjórn sé þann leik að gera upp á milli hverfa í bænum, allt eftir því hvar sterkustu bæjarfulltrúarnir búa. En það virðist þó raunin með núverandi ríkistjórn, og jafnvel flestar þær fyrri. Það er langt síðan að Suðurnesin hafa staðið jafnfætis öðrum hlutum landsins þegar kemur að fjárveitingum ríkisins til þeirra málaflokka sem ríkinu er ætlað að sinna.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Í fjárlagafrumvarpi núverandi ríkistjórnar er dregið úr nánast öllum fjárveitingum til verkefna ríkisins á Suðurnesjum, miðað við fólksfjölda á svæðinu. Fólksfjöldi hlýtur að vera sanngjarnt viðmið þegar kemur að útdeilingu fjár úr almannasjóðum, þó auðvitað komi aðrir hlutir einnig til álita. Það þýðir lítið að vísa stöðugt til prósentuhækkana í krónum talið á fjárveitingum, þegar ekki er tekið tillit til fólksfjölgunar á svæðinu. Fólksfjölgun á Suðurnesjum undanfarin hefur veið nánast fordæmalaus.

Enn og aftur má sjá í fjárlagafrumvarpinu að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja fær langlægstu framlög allra heilbrigðisstofnanna á landinu miðað við fólksfjölda, og munar þar tugum þúsunda króna á þeim sem næstir koma, og hundruðum þúsunda króna á þeim sem mest fá.

Sömu saga virðist vera hvað menntamálin varðar, þar er Fjölbrautarskóli Suðurnesja í neðri endanum þegar kemur að fjárveitingum á hvern nemanda, og munar þar tæpri milljón á nemanda miðað við þann sem mest fær.

Reykjanesbrautin er kapítuli út af fyrir sig. Nú hefur samgönguráðherra tilkynnt að tvöföldun Reykjanesbrautarinnar verði ekki lokið fyrr en árið 2034. Það gerir hann þrátt fyrir að vita að um Reykjanesbrautina fara nánast allir ferðamenn sem til landsins koma. Þrátt fyrir að vita að mikilvægi brautarinnar sem neyðarvegar eykst í takt við fjölgun ferðamanna til landsins verði alvarlegt slys á vellinum, nema hann ímyndi sér að fjársvelt stofnun eins og HSS geti tekið við slíku fjöldaslysi. Það á að vera sjálfsögð og eðlileg krafa að tvöföldun Reykjanesbrautar sé lokið að minnsta kosti tíu árum fyrr, sem er jú líka langt úti í framtíðinni.

Það vekur athygli að núverandi fjármálaráðherra hyggst halda þumalskrúfu í á uppbyggingu svæðisins í gegnum skúffufyrirtækið Kadeco, þar sem hann hefur skipað þrjá menn í stjórn. Einn úr Reykjanesbæ, og tvo úr Reykjavík. Enginn þessara aðila tengist bæjarstjórn Reykjanesbæjar. Þessir þrír aðilar hafa umboð til lóðaúthlutunar og ákvarðanir um nýtingu svæðisins, óháð hverjir hagsmunir Reykjanesbæjar kunna að vera á hverjum tíma. Heyrst hefur að Kadeco hafi nú þegar veitt fasteignamógúlum forkaupsrétt að stórum hluta svæðisins, gegn því að þeir hinir sömu vinni deiliskipulag svæðisins. Eftir situr Reykjanesbær með þá þjónustu sem inna þarf af hendi. Sé sagan sönn gæti það orðð stór biti fyrir fjárhag Reykjanesbæjar.

Það hefur verið lenska á meðal íslenskra stjórnmálamanna að vísa til þess á hátíðarstundum að þeir séu þingmenn alls landsins. Að þeirra skyldur séu að jöfnuður ríki meðal allra þegna ríkisins. Nú er þeirra tími loksins komin til að sýna að orð fylgi máli og breyti því fjálagafrumvarpi sem nú liggur fyrir, þannig að Suðurnesjamenn njóti sömu stöðu hvað varðar fjárveitingar til þeirra mála sem ríkinu er ætlað að sinna.

Þar þurfa þingmenn Suðurnesja að vinna saman óháð flokkshagsmunum, fyrir íbúa á Suðurnesjum og við íbúar að standa svo fast að baki þeim sem mögulegt er. Þegar kemur að fjárveitingum ríkisins til þeirra málaflokka sem að okkur snúa þurfum að verða eitt lið,

Team Suðurnes.

Með bestu kveðju

Hannes Friðriksson