Tálsýnir og veruleikinn
Silja Dögg Gunnarsdóttir skrifar.
Undirrituð hefur átt sæti í atvinnu-og hafnaráði Reykjanesbæjar sl. fjögur ár. Samstarfið í ráðinu hefur verið til fyrirmyndar. Fyrsta árið okkar fór í ná nauðasamningum við kröfuhafana því eins og flestir vita þá skuldar hafnarsjóður nú ríflega sjöþúsund milljónir króna. Stærstur hluti þeirrar upphæðar er tilkominn vegna framkvæmda við Helguvík, sumir segja ótímabærra en ég læt það liggja á milli hluta hvort svo hafi verið. Nú berast fregnir að því að kísilfyrirtækið United Silicon hyggist hefja lóðaframkvæmdir í Helguvík í dag; er allt að fara af stað? Vonandi.
Lóðaframkvæmdir og hvað svo?
Síðasti fundur hafnarráðs var haldinn í sl. viku. Við vorum sammála að margt hefði gerst á þessum fjórum árum í atvinnumálum, t.a.m. atvinnuuppbygging á Reykjanesi, stækkun Flugstöðvarinnar og gróskumikið starf á Ásbrú. En á hinn bóginn hefðu við öll viljað sjá atvinnulífið í Helguvík verða að veruleika á þessum tíma, en svo varð því miður ekki.
Nú berast fréttir af því að United Silicon, sem er eitt þeirra fyrirtækja sem hafa fest sér lóð á svæðinu, ætli að hefja jarðvegsframkvæmdir í dag, 28. maí. Hafnarstjóri sendi starfsmönnum hafnarráðs þann 27. maí tölvupóst þar sem segir: „United Silicon hafa tilkynnt að þeir muni byrja að jarðvegsskipta inn á lóð sinni sem þeir keyptu 2012. ÍAV hf. munu trúlega byrja á morgun við framkvæmdirnar. Reykjaneshöfn mun ekki semja við ÍAV við holræsalagnir í Helguvík fyrr en greiðsla berst frá U.S. eins og við ræddum um á síðasta stjórnarfundi.”
Veruleikinn- staðan er óbreytt
Ég verð að viðurkenna að ég veðraðist aðeins upp við þessar framkvæmdafréttir fjölmiðla. Það skyldi þó ekki vera að nú væru hlutirnir að fara að gerast, þremur dögum fyrir kosningar? Þegar betur er að gáð þá er staðan óbreytt í Helguvík. United Silicon á eftir að greiða Reykjaneshöfn 100 milljónir, sem er fyrsta afborgun. Greiðslan er ekki gjaldfallin en eigendur United Silicon munu ekki greiða þessa upphæð fyrr en raforkusamningur við Landvirkjun hefur verið fullgildur. Menn stefna á að það verði gert fyrir júnílok.
Látum verkin tala
Við vonum svo sannarlega öll að atvinnuuppbygging í Helguvík fari af stað sem fyrst. Enn sem komið er eru samningar ekki í höfn. Reynsla sl. 4 ára í atvinnu-og hafnaráði hefur kennt mér að viljayfirlýsingar og yfirlýsingar almennt hafa lítið gildi. Það borgar sig ekki að hlaupa upp til handa og fóta um leið og einhver segist vera með hugmynd eða hafa áhuga. Það sem skiptir raunverulega máli eru undirritaðir samningar og að menn greiði hafnarsjóði það sem þeim ber. Aðeins þá trúi ég að verkefnin verði að veruleika.
Spörum ótímabærar yfirlýsingar og látum verkin tala. X-B fyrir breytingar í Reykjanesbæ!
Silja Dögg Gunnarsdóttir, fulltrúi Framsóknar í Atvinnu-og hafnarráði og alþingismaður.