Taktu þátt og hafðu áhrif!
Ég hef alla tíð haft brennandi áhuga á samfélagsmálum og er reiðubúin að leggjast á árarnar til þess að gera samfélagið okkar réttlátt og gott, samfélag þar sem allir eiga möguleika á að taka virkan þátt. Við erum ekki fjölmenn þjóð og við eigum að láta okkur hvert annað varða. Hver og einn einstaklingur skiptir miklu máli.
Það þarf að standa vörð um velferðar– og menntamál. Á Suðurlandi eigum við marga öfluga framhaldsskóla, símenntunarmiðstöðvar og háskólafélög. Þessum mikilvægu fjöreggjum þurfum við að hlúa sérstaklega vel að. Við þurfum að vinna markvisst gegn brottfalli úr framhaldsskólum. Það getum við m.a. gert með því að búa til fleiri sveigjanleg námsframboð þannig að allir finni eitthvað við sitt hæfi. Ég vil leggja mitt af mörkum til þess að gera aðgengi að námi sem auðveldast fyrir alla.
Atvinnumál eru velferðarmál. Að vera á vinnumarkaði og leggja af mörkum til samfélagsins skiptir miklu máli fyrir sjálfsmynd hvers og eins. Með mikilli atvinnuþátttöku berjumst við gegna fátækt, stuðlum að jafnrétti og höfum meira til ráðstöfunar í velferðarþjónustuna okkar. Atvinna fyrir alla á alltaf að vera mikilvægasta markmiðið.
Aldurssamsetning þjóðarinnar er að breytast og sífellt fleiri ná háum aldri. Því er afar mikilvægt að við hröðum uppbyggingu hjúkrunarheimila og eflum þjónustu við aldraða. Við þurfum að þróa þjónustuna við aldrað fólk þannig að hún verði sveigjanlegri og meira einstaklingsmiðuð heldur en raunin er í dag.
Ég vil leggja mitt af mörkum til þess að breyta þeirri umræðuhefð sem verið hefur við lýði á alþingi síðustu misseri. Það er algert grundvallaratriði að alþingismenn hafi samstarfsvilja til þess að leysa málin til hagsbóta fyrir alla landsmenn. Stjórnmálamenn verða að temja sér öguð og vönduð vinnubrögð hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu. Það fylgir því rík ábyrgð að vera fulltrúi kjósenda á alþingi Íslendinga.
Það skiptir miklu máli hverjir stjórna og hvernig það er gert. Með yfirvegun, heiðarleika og jafnaðarstefnuna að vopni er ég sannfærð um að við getum byggt betra samfélag fyrir alla.
Ég óska eftir stuðningi í 3.sætið í forvali Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi. Kosning fer fram 16.-17.nóvember nk. og er kosið rafrænt. Flokksfélagar og allir þeir sem skrá sig á stuðningsmannaskrá á www.xs.is fyrir miðnætti þann 8.nóvember geta tekið þátt. Taktu þátt í forvalinu og hafðu áhrif!
Arna Ír Gunnarsdóttir félagsráðgjafi og bæjarfulltrúi.