Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Aðsent

Taktleysi framkvæmdaraðila á Hafnargötu 12
Föstudagur 27. janúar 2017 kl. 13:05

Taktleysi framkvæmdaraðila á Hafnargötu 12

Eydís Hentze Pétursdóttir íbúi í Gamla bænum skrifar

Kæru sveitungar nær og fjær. Í gær héldu framkvæmdaraðilar og eigendur SBK reitarins að Hafnargötu 12 kynningu á áformaðri byggingu. Ég held að flestir íbúar vilji svo sannarlega sjá uppbyggingu í miðbænum en umrædd tillaga er eitthvað sem ég tel alls ekki að sé líkleg til að vera miðbænum, Gamla bænum eða bænum okkar heilt yfir til nokkurs sóma. Ekki var annað að sjá en að fundargestir væru á sama máli, en þarna voru ekki einungis íbúar hverfisins sem komu áleiðis mótmælum sínum.
Reisa á hús á þremur hæðum með alls 77 íbúðum. Byggingarnar verða algert stílbrot (stílbrot er varfærnislega orðað, þetta er einfaldlega ljót hönnun sem tekur ekkert tillit til umhverfisins) á þeim húsum sem fyrir eru og kaffærist byggðin fyrir aftan þessi hús. Öll hús á svæðinu glata sjávarútsýni, fá á sig skugga og ekkert vindalíkan liggur fyrir.

Gamli bærinn, sem svo harkalega var þjarmað að í langan tíma en hefur á liðnum árum fengið uppreist æru á, ef af verður, að fá sömu umferð aftur - verða innikróaður háum fjölbýlishúsum til þess eins að framkvæmdaraðilar fái meira í sinn vasa. Þetta er bæjarhlutinn sem við göngum um um helgar, sem tekur virkan þátt í menningarstarfssemi bæjarins á Ljósanótt, sem er eftirsótt íbúahverfi fólks á öllum aldri. Bæjarhlutinn sem nær allir innfæddir Keflvíkingar eiga ættir sínar til að rekja. Í húsunum hérna fæddust ótal margir núlifandi Keflvíkingar, eða foreldrar þeirra eða ömmur þeirra og afar. Þetta er bæjarhlutinn sem ferðamenn og utanbæjarfólk leggur helst leið sína um þegar það er hér í bæ. Við eigum ekki láta okkur nægja Duus eða Fishershús eða hleðsluna sem minnisvarða um sögu bæjarins, við eigum heilt hverfi sem ber söguna áfram og heldur henni lifandi.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Af þeim sökum finnst mér ákaflega mikilvægt að við stöndum saman um að þróa Gamla bæinn á þeim nótum sem gert hefur verið undanfarin ár. Að hann verði áfram meðhöndlaður sem menningarverðmæti. Að það litla sem eftir af honum er og hefur varðveist verði sýnd sú virðing sem eðlilegt er.

Ég skora á ykkur að skila inn athugasemdum vegna skipulagsins. Látum þetta ekki gerast!

Eydís Hentze Pétursdóttir íbúi í Gamla bænum