Tákn og táknfræði í Kirkjulundi
Dr. Gunnar Kristjánsson prófastur flytur kvöldnámskeið um tákn og táknfræði. Það verður haldið í Kirkjulundi miðvikudagskvöldið 9. nóvember milli kl. 20 og 21:30.
Dr. Gunnar er hafsjór þekkingar á þessu sviði og eftirsóknarvert bæði fyrir þá sem fást við myndmál og texta að kynna sér dýpri merkingu þeirra tákna sem koma fyrir í umhverfi okkar, en á námskeiðinu verður m.a. fjallað um táknheiminn, hvað tákn er og merkingu einstakra tákna. Einnig verður fjallað um hvernig tákn verða til og hvernig þau úreldast, auk fjölda spurninga sem áhugavert er um að fást.
Tákn í kirkjum hafa löngum vakið forvitni, en fjársjóður þekkingar er fólginn í því að lesa merkingu þeirra. Sum eiga sér ævaforna sögu en önnur eru að fæðast á þessari stundu. Sum þessara tákna eru sameign kirkjunnar með mörgum öðrum trúarbrögðum, svonefnd frumtákn.
Heimur tákna og táknmáls birtist okkur einkum í myndum, en einnig með öðrum hætti; sem stafir, orð, litir, form, skepnur og hugtök. Raunar getur nánast hvaðeina haft tákngildi.
Allir velkomnir í Kirkjulund.