Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Takk fyrir mig
Föstudagur 3. október 2014 kl. 09:00

Takk fyrir mig

Hjördís Árnadóttir skrifar.

Öll stöndum við einhvern tímann á tímamótum. Ég stend þessa dagana á einum stærstu tímamótum ævi minnar hingað til. Af heilsufarsástæðum þarf ég að láta af störfum fyrr en ég hefði viljað. Ég vel að taka því með æðruleysi og sætta mig við aðstæður. Ég geri mér grein fyrir að starf félagsmálastjóra krefst 100% framlags ef ekki 200% og ég vil ekki sitja í því, á kostnað sjálfrar mín, samstarfsmanna og þjónustu við ykkur kæru íbúar.

Það hafa verið forréttindi að vinna fyrir ykkur fólkið í samfélaginu okkar, sem hafið á einum eða öðrum tíma þurft að leita eftir félagslegri þjónustu. Starfsaldur minn hjá Reykjanesbæ er jafnlangur og sveitarfélagið er gamalt. Það er því óhætt að fullyrða að starfið hafi mótað mig og ég það. Ég hef hitt marga á þessum árum og ávallt verið annt um að sýna hverjum manni virðingu og mæta fólki þar sem það er statt hverju sinni.  Mest hef ég haft gaman af því að kynnast „furðufuglunum“ sem þora að vera þeir sjálfir og gefa lífinu lit. Ég vona að ég geti flokkast undir þann hóp, ég vil vera „furðufugl“.

Ég hef verið afar lánsöm með samstarfsfólk og fullyrði að til Fjölskyldu- og félagsþjónustu Reykjanesbæjar hefur ávallt valist úrvals starfsfólk, meðvitað um að við erum hér fyrir fólkið. Reykjanesbær er góður vinnustaður þar sem allir vilja samfélaginu sínu það besta undir stjórn þess bæjarstjóra sem stýrir skútunni hverju sinni. Félagsleg þjónusta er oft litin öðrum augum en önnur þjónusta við íbúa. Hún er engu að síður einn mikilvægasti þjónustuþáttur í hverju samfélagi og hefur fylgt mannkyninu frá upphafi. Engin veit hvenær eða hvort hann þarfnist einhverrar þeirrar þjónustu sem þar er að finna, en þegar og ef, á það að vera fólki jafn eðlilegt og sjálfsagt og að skrá barnið sitt í skóla, fá teikningar af húsinu sínu, sækja sér bók í bókasafnið og svo framvegis.

Með trega kveð ég góðan vinnustað sem hefur verið stærsti partur lífs míns undanfarna áratugi, en ég hef valið að sætta mig við hlutskipti mitt. Ég vil þakka ykkur öllum, sem ég hef haft samskipti við á liðnum árum, fyrir ykkar þátt í að gera mig að þeirri manneskju sem ég er. Ég er bara nokkuð sátt við þá manneskju og hyggst rækta hana enn frekar nú þegar nýjir tímar taka við.

Hver veit nema þið rekist á mig við ólíklegustu aðstæður. Ég hef nefnilega áttað mig á því að köllun mín í lífinu er „þjónusta“ og ég mun halda áfram á þeirri braut, þegar ég hef komið jafnvægi á heilsuna mína, þó það verði ekki sem launþegi.

Til „þjónustu“ reiðubúin
Hjördís Árnadóttir

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024