Takk fyrir mig
Grín er gott í hófi en mikilvægt að hver sá sem með gamanmál fer gæti sín, því oft er það þannig að fleiri en þeir sem gert er grín að verða fyrir barðinu. Á undanförnum árum hef ég leyft mér þann munað að gagnrýna (rýna til gagns) ýmis þau mál sem í umræðu hafa verið í bæjarfélaginu. Ég hef tekið þátt í pólitískri umræðu og reynt að vinna til gagns fyrir þann bæ sem ég bý í. Talið það hluta af minni samfélagslegu skyldu.
Ég hef verið virkur þátttakandi af því mér hefur fundist gaman af því. Ég hef verið í stjórn Velferðarsjósðsins, starfað í fjölskyldu- og félagsmálaráði, verið í stjórn Rauða Krossins, og meira segja einu sinni í stjórn Myndlistarfélags Reykjanesbæjar, flest allt ólaunuð störf sem ég hef tekið að mér, bæði mér til skemmtunar og vonandi til gagns fyrir samfélagið. Þetta hef ég gert af heilum hug og fyrir það hefur fjölskyldan og jafnvel vinnan þurft að gjalda fyrir á tímabilum. Nú verður breyting.
Samfélag okkar hér í Reykjanesbæ þykir mér mjög vænt um, hér býr gott og dugmikið og að langmestu leyti sanngjarnt fólk. Fyrir það hef ég viljað berjast. Og gert. Verið til í að láta ýmislegt yfir mig ganga í þeirri baráttu. En allt á sér enda. Og sá endi fann sér stað í þorraannál Íþróttabandalags Keflavíkur, þar sem þó nokkur fjöldi félaga minna var viðstaddur og ætlast til að þeir myndu hlægja að innslagi þar sem ég og Guðbrandur Einarsson vorm útmálaðir sem neikvæðustu menn Reykjanesbæjar sökum greinaskrifa okkar. Hvert grínið eða tilgangurinn var kom ekki fram í annálnum, enda hvorugur tekið umtalsverðan þátt í starfi íþróttabandalagsins ÍBK sem stutt er af almannafé annað en mæta á leiki við og við til að hvetja liðið í baráttu sinni.
Því miður, þrátt fyrir særindi mín var þetta þó mikilsverðast innleggið í því gríni sem fram var borið. Það sýnir svo hróplega hvar það samfélag sem við búum í er statt. Það eitt að hafa skoðun og opinbera hana eftir því sem manni hugnast er hættulegt. Hver sá sem ekki er sammála síðasta ræðumanni má eiga það á hættu að gert sé grín af honum og raun ærumeiðingar sé sá hinn sami ekki handgenginn hverju því er hugleikið er hinum ráðandi öflum hverju sinni. Í slíku samfélagi vil ég ekki búa, né get boðið mínum nánustu upp á það.
Ég hef því ákveðið í samráði við eiginkonu mína að svo fljótt sem verða má munum við flytja burt úr bænum um leið og við höfum sagt okkur frá öllum þeim verkefnum við höfum talið okkur vinna í almannaþágu. Um leið og ég þakka kærlega þeim fjölmörgu er stutt hafa mig í gegnum árin, þá á ég þá ósk heitasta að einhvern tíma muni hér rísa upp samfélag sem getur tekist á við gagnrýna umræðu, án þess að ráðist sé í manninn, heldur málefnið. Fyrst þá mun Reykjanesbæ farnast vel. Takk fyrir mig.
Bestu kveðjur,
Hannes Friðriksson