Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Tækifærin eru til staðar
Fimmtudagur 14. október 2004 kl. 09:52

Tækifærin eru til staðar

Fyrir tæpum tveimur árum kallaði undirritaður saman um 20 manna hóp fólks af Suðurnesjum.  Um var að ræða fyrrum nemendur FS og/eða fólk sem býr eða hefur búið á Suðurnesjum og látið til sín taka á ýmsum sviðum atvinnulífs.  Markmið fundarins var að spá í hvaða möguleikar væru fyrirhendi til atvinnuuppbyggingar á svæðinu.  Öll vorum við sammála um að tækifæri væru sannarlega til staðar – spurningin lyti fremur að því að sjá þau og nýta.  Allt of  algengt er að horfa neikvætt á málin í stað þess að sækja fram með bjartsýni og von að vopni.

Margt í pípunum
Vissulega eru miklar breytingar að eiga sér stað á svæðinu.  Sumar sársaukafullar en aðrar vekja sannarlega vonir.  Þannig má segja að óvissan um Völlinn feli í sér mikil óþægindi og óvissu fyrir fjölmargar fjölskyldur.  Á hinn bóginn hefur störfum fjölgað um nokkur hundruð í tengslum við FLE.  Er nú svo komið að FLE er fjölmennari vinnustaður en nokkur annar hér á landi. og enn er vöxtur þar fyrirséður.  Þá hafa nýsprotafyrirtæki haslað sér völl hér fyrir dugnað, bjartsýni og útsjónarsemi frumkvölanna.  Má þar nefna Kaffitár, Undra, Ifex (gæludýrafóður) og fleiri slík fyrirtæki.  Bláa lónið er líklegasta frægasta fyrirtæki landsins, Hitaveita Suðurnesja í stórframkvæmdum á Reykjanesi og þannig má áfram telja.  Margt bendir til að stálpípuverksmiðjan komi hingað og skapi fjölmörg eftirsótt störf (vonum hið besta í þeim efnum).  Þessi upptalning er engan veginn tæmandi en gefur góða vísbendingu um að mikið er í deiglunni á svæðinu.  Og betur má ef duga skal.

Markviss vinnubrögð skila árangri
Fyrrgeindur hópur dró saman margar hugmyndir um tækifæri til atvinnusköpunar þar sem gert er ráð fyrir margþættri samvinnu margara aðila á Suðurnesjum.  Til þess að hugmyndir nái fram að ganga þarf skilvirka stefnumótun með samstilltu átaki margra aðila.  Hópurinn kynnti hugmyndir sínar á opnum fundi á Ránni.  Því miður sáu ekki margir sveitarstjórnarmenn sér fært að mæta en vönduð skýrsla (sem Helga Sigrún Harðardóttir tók saman fyrir hópinn) var send til sveitarfélaga, verkalýðsfélaga og annarra aðila sem málið varðar.  Ég hvet þessa aðila til að huga að hugmyndum hópsins því þar kunna að felast góð tækifæri til atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum.  Svæðið hefur einstaka möguleika vegna legu sinnar, skóla, orku, hafna, FLE og dugmikilla íbúa.  Meginatriðið er að stilla saman strengi, leita að tækifærum og ýta þeim úr vör með bjartsýni og samheldni  að vopni.  Hópurinn bendir á markvissar leiðir til þess.

Hjálmar Árnason,
alþingismaður.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024