Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Tækifærin eru á Suðurnesjum
Fimmtudagur 11. desember 2008 kl. 10:54

Tækifærin eru á Suðurnesjum



Um aðventu og jól er hefð fyrir því að fjölskyldan og vinir setjist niður og geri sér glaðan dag, ræði saman og hugi að verkefnum næsta árs. Viðbúið er umræðurnar þetta árið mótist af því efnahagsástandi sem dunið hefur á okkur undanfarnar vikur. Við erum öll að takast á við eðlilegar tilfinningar eins og reiði, vonbrigði og ótta sem eru fylgifiskar áfalla og óvissu. Við verðum hinsvegar líka að leyfa okkur að hugsa lengra og vekja með okkur von.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Aðventan er einmitt tími vonar, tími sem boðar komu ljóssins og jólahátíðarinnar. Hún minnir okkur á að vonin getur kveikt í okkur þann þrótt sem þarf til nýrra verka á nýju ári.



Á Suðurnesjum er full ástæða til að vera vongóður. Öll grunngerð samfélagsins er öflug, hvort sem við berum okkur saman við önnur svæði á Íslandi eða önnur ríki.



Á Suðurnesjum búa rúmlega 20.000 manns með fjölbreytta menntun og reynslu sem mun nýtast til góðra verka á nýju ári. Suðurnesjamenn hafa ávallt verið kraftmiklir og framsæknir. Það nægir að benda á árangur íþróttafólks á Suðurnesjum til að sjá að sá kraftur er enn til staðar. Við skulum virkja þann kraft og mannauð sem á svæðinu er.



Á Suðurnesjum er bestu samgöngur á landinu. Um svæðið liggur upplýst og tvöföld Reykjanesbraut og milli bæja eru vegtengingar eins og bestar gerast á landinu. Á svæðinu eru margar hafnir. Þar á meðal eins sú aflahæsta á landinu og ein besta stórskipahöfn landsins. Síðast en ekki síst er hér eini alþjóðaflugvöllur landsins sem býður upp á ótal tækifæri til langrar framtíðar.

Á Suðurnesjum eru náttúruauðlindir. Fá önnur svæði í heiminum státa af eins og fjölbreyttum náttúruauðlindum. Auðlindir hafsins hafa gefið vel af sér í gegnum tíðina og jarðgufan og hitinn hafa aukið fjölbreytni á svæðinu. Í orkunni liggja enn ónýtt tækifæri til langrar framtíðar. Þau tækifæri munum við grípa í samstarfi við vaxandi menntastofnanir á svæðinu.



Á Suðurnesjum er öflugt atvinnulíf. Svæðið hefur um aldir verið eitt besta útgerðarsvæði landsins og mun verða það áfram, en þar eru Grindvíkingar í fararbroddi. Ferðaþjónusta hefur vaxið gríðarlega undanfarin ár, en um svæðið fara nærri allir erlendir ferðamenn sem til landsins koma. Flugstöð Leifs Eiríkssonar og Bláa lónið eru miðpunktarnir, en ferðamenn hafa margt annað að sækja til Suðurnesja. Svæðið hentar vel fyrir orkufreka starfsemi og eru nokkur slík verkefni í vinnslu. Gangi þau upp mun það skapa fjöldamörg störf á svæðinu, strax á næsta ári.

Á Suðurnesjum er til fjármagn. Auðlindir og hugmyndir þurfa fjármagn til að vaxa og dafna. Sveitarfélögin á svæðinu eiga um 10 milljarða í handbæru fé. Fé sem þau hafa meðal annars notað til að verja stöðu Sparisjóðs okkar Suðurnesjamanna svo hann geti risið upp og staðið að baki uppbyggingu næstu ára.

Á Suðurnesjum er því full ástæða til bjartsýni. Við munum ganga í gegnum erfiðleika næstu misserin, en tækifærin eru líka þarna úti. Þau verðum við að grípa í sameiningu.


Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri í Vogum.