Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Tækifæri í sjávarútvegi
Fimmtudagur 13. nóvember 2008 kl. 12:47

Tækifæri í sjávarútvegi


Sem aldrei fyrr er sjávarútvegurinn í tísku. Á augabragði breyttist atvinnugreinin í að vera hálfgert tabú eða hallærislegt gamaldags fyrirbæri yfir í að vera bjargvættur þjóðarinnar, stolt okkar og haldreipi í þeim erfiðleikum sem nú herja á þjóðarbúið. Ég starfa í sjávarútvegi og hef gert frá unga aldri. Á grunnskólaaldri starfaði ég við saltfiskverkun yfir sumartímann og 16 ára fór ég sjóinn. Ég fór í Stýrimannaskólann og starfaði sem sjómaður fram til 26 ára aldurs. Allar götur síðan hef ég verið að kaupa og selja sjávarafurðir og tel mig vera kaupmann í dag, fiskkaupmann. Ég er daglega í sambandi við fjölmarga íslenska framleiðendur  á sjávarafurðum og einnig er ég daglega í sambandi við fjölmarga erlenda viðskiptavini á sjávarafurðum. Ég leyfi mér að henta þessu niður á blað svo tekinn verði trúanlega og alvarlega um það sem ég vil skrifa í þessum pistli sem fjallar á einfaldan hátt um tækifæri fyrir okkur heimamenn í sjávarútvegi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Samkeppni milli byggðarlaga
Sjávarútvegur eins og margar greinar á að vera eftirsóttur meðal sveitarfélaga, stærri sem smærri. Þau sveitarfélög sem búa yfir ágætum höfnum eiga að sjálfsögðu að berjast um hituna, reyna eftir öllum mætti að laða til sín félög í sjávarútvegi. Reykjanesbær, sem og önnur byggðarlög á Suðurnesjum, er afar vel staðsettur. Staðsetningin ein og sér, þessi mikla nálægð við flugvöllinn sem og nálægð við útskipunarhafnir í Hafnarfirði og Reykjavík á að tryggja hér kraftmikinn sjávarútveg um ókomna tíð. Því miður hefur metnaður fyrir hönd sjávarútvegsins ekki verið sem skyldi hér í Reykjanesbæ. Aðrar atvinnugreinar, alls ekki óverðugri, hafa átt alla athyglina og fyrir vikið er sjávarútvegur í Reykjanesbæ í skötulíki. Ég spyr mig gjarnan af hverju bæjarfulltrúar hafa ekki viljað keyra þessa grein áfram samhliða öðru starfi. Með skipulögðu starfi er hægt að fá félög hingað inn. Ég nefni Ísfélagið í Vestmannaeyjum sem nýlega setti af stað bolfiskvinnslu á Þórshöfn. Er hugsanlegt að markviss vinna hér heima hefði frekar getað laðað þessa vinnslu hingað suður en þangað norður? Ég tel svo vera því nálægðin við flugvöllinn myndi að sjálfsögðu auka möguleika vinnslunnar að framleiða vöru inn á ferskfiskmarkaði ytra. Ferskur fiskur er jafnan dýrari en sá frysti og bíður yfirleitt upp á hærri framlegð í rekstrinum ef rétt er á spilunum haldið. Enn fremur geta heimamenn ákveðið að reyna að byggja bæinn upp sem miðstöð viðskipta í útflutningi þar sem útflutningsfyrirtæki eins og ég rek sjálfur ásamt bræðrum mínum væru lokkuð hingað suður.


Tækifæri í framleiðslu?
Það er án efa tækifæri í öflugri framleiðslu á næstu misserum og gæti Reykjanesbær fengið ríkulegan skerf af þeim tækifærum ef menn eru vakandi. Þrennt þarf að gerast til að koma hlutunum af stað. Í fyrsta lagi eru allar líkur á því að þorskkvótinn verði aukinn á næstunni. Slíkt mun koma öllu landinu til góða. Í annan stað verður að fyrirbyggja þennan stórfellda útflutning á heilu útfluttu hráefni sem keyrir niður heildarverðmæti fiskjar af Íslandsmiðum um ca. 12-15 milljarða króna á ári. Til þess að þetta atriði nái fram að ganga þarf ráðherra að breyta reglugerð sem hann afnám fyrir rúmlega ári. Setja þarf aftur á kvótaálag á heilum útfluttum fiski og það strax. Við höfum ekki efni á því Íslendingar að flytja út hátt í þúsund störf á ári. Við erum t.a.m. að selja rúmlega 30.000 tonn af heilum fiski til Humber svæðisins í Englandi og er þá óátalið magnið af heilum fiski sem fer til Þýskalands og annarra landa.  Við tryggjum Englendingum hundruði starfa með þessu framtaki okkar og eru þeir kannski ekki svo vinsælir hjá íslenskri þjóð í augnablikinu.  Án efa myndi þetta magn, ef selt væri hér heima, fara að stórum hluta í gegnum íslenska fiskmarkaðskerfið sem myndi hleypa miklu lífi í alla framleiðslu um allt land og auka jafnframt möguleika kvótaminni byggðarlaga eins og Reykjanesbæjar að auka hlut sinn í framleiðslu á sjávarmeti. Ég krefst þess að kjörnir bæjafulltrúar hamri á þessu máli við ráðherra. Það er til mikils að vinna enda ótrúlegur fjöldi vel launaðra starfa í húfi.


Fiskvinnsluhús verður að reisa
Í þriðja lagi og að lokum vil ég nefna til sögunnar ákveðna aðferð sem hefur verið beitt með miklum ágætum víða um heim við uppbyggingu atvinnuvega. Ég legg fram dæmi: Gefum okkur að fulltrúar Reykjanesbæjar fái nú allt í einu áhuga á sjávarútvegi. Ákveðið iðnaðarsvæði fer til skipulags þar sem byggja á upp á fiskvinnslu á einu svæði. Forsvarsmenn bæjarins hafa samband við stór framleiðslufyrirtæki í sjávarútvegi hér og þar á landinu og kanna áhuga þeirra að taka hluta aflans inn til ferskfisk vinnslu í Keflavík. Einnig er auglýst í blöðum eftir áhugasömum  aðilum sem vilja leigja nýjar en tækjalausar framleiðslueiningar og hefja þar með framleiðslu á svæðinu. Á þessu stigi hafa hinir sömu (bærinn) áður rætt við verktaka hér í bæ sem geta á skömmum tíma sett saman og byggt upp stálgrindarhús og haft hag á því að leigja þau út til þeirra sem hafa áhuga á að framleiða hér á þessu svæði. M.ö.o. Reykjanesbær tengir saman verktaka annars vegar og áhugasama verkendur hins vegar sem vantar fullgild hús undir framleiðslu sína. Ef þetta tekst þá vinna allir á framkvæmdinni og það sem mest er um vert er að hróður byggðarlagsins vex í samkeppninni um félög í sjávarútvegi. Kostnaður Reykjanesbæjar eru auglýsingar um verkefnið út á við ásamt því starfi sem felst í því að hafa samband við menn innan greinarinnar og kanna áhuga þeirra fyrir samstarfi hér syðra. Ávinningurinn er augljós fjölgun starfa, öflugri sjávarútvegur, störf fyrir iðnaðarmenn við uppbyggingu verksmiðjanna og auknar tekjur í formi útvars og aðstöðugjalda. Hér í bæ eru eingöngu úr sér genginn fiskvinnsluhús að finna (að einu undanskildu er geymir rekstur Fiskvals ehf á Iðavöllum). Þetta eru hriplekar gamlar einingar og raun bíða bara niðurrifs. Staðsetning þessara húsa eru engu að síður frábær eða nærri höfnum í Keflavík og ytri Njarðvík. Í Sandgerði eru hins vegar tvö fyrirmyndar fyrirtæki í sjávarútvegi í nýlegum og fullgildum húsum til framleiðslu. Þau eru Nýfiskur annars vegar og svo K&G ehf hins vegar en einmitt það félag gekk okkur greipum fyrr á þessu ári. Félagið yfirgaf Reykjanesbæ og fór yfir í Sandgerði  með sín 40-50 ársverk. Á ekki þróunin frekar að vera í hina áttina fyrir Reykjanesbæ að fjölga störfum í sjávarútvegi í stað þess að tapa þeim? Endurnýjun verksmiðja í Reykjanesbæ hefur engin verið á umliðnum áum enda hafa stjórnvöld markvisst gelt þessa atvinnugrein með tilliti til nýliðunar.


Breyttir tímar
Vonandi mun nýliðun breytast með nýju fólki við stjórnvölinn. Er ekki kominn tími á hreinsun og breytingar? Eiga  þessir gömlu íhaldsseggir sem öllu hafa ráðið hér undanfarin ár, áfram að ráða? Sömu menn eru ábyrgir fyrir afhroði Sparisjóðs Keflavíkur sem er nú efni í aðra grein. Þessir forystusauðir hafa brugðist hrapallega og verða gjalda fyrir mistök sín eins og annað fólk. Ég alla vega þekki ekkert annað persónulega en að vera dreginn til ábyrgðar á mistökum og afglöpum.  Ég vona að þessir menn hér og annars staðar á landinu viti og skynji að þeirra tími er nú liðinn.
Þakka þeim sem lásu
Gunnar Örn Örlygsson
Fiskútflytjandi Reykjanesbæ