Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Föstudagur 21. mars 2003 kl. 10:11

T fyrir trúverðugleika!

Í aðdraganda kosninga verða skoðanakannanir sífellt stærri þáttur í kosningabaráttunni. Oddvitar flokka og framboða eru að vonum misánægðir með sinn hlut í skoðanakönnunum, enda gengi flokka oftar en ekki breytilegt. Magnús Þór Hafsteinsson, forystumaður Frjálslynda flokksins í Suðurkjördæmi, fjallaði nýlega í Víkurfréttum um niðurstöður skoðanakönnunar Fréttablaðsins á fylgi flokkanna og T listans í Suðurkjördæmi. Magnús er allt annað en ánægður með þá niðurstöðu að um 6% aðspurðra í kjördæminu kváðust styðja þetta nýja framboð, meðan aðeins 2% lýstu fylgi við Frjálslynda flokkinn. Í tilefni af þessari niðurstöðu leggst Magnús í mikla útreikninga á því hvað þetta sé nú allt saman mikil steypa, þar sem ætla megi að aðeins 56 manns hafi verið spurðir álits í Suðurkjördæmi í þessari könnun. Allar skoðanakannanir eru háðar óvissu eins og vel er þekkt. En það breytir ekki því sem mestu máli skiptir, nefnilega, að 3 sögðust styðja T listann en aðeins 1 F listann, þ.e. að fylgi T listans var þrisvar sinnum meira. Sú niðurstaða er vissulega vísbending um misjafnt fylgi þessara lista. Skekkjan er augljóslega mikil og niðurstöður ber að túlka með varúð. Það hljómar samt einkennilega að túlka skoðanir kjósenda sem "eintóma dellu", eins og Magnús orðar það, þegar niðurstaðan er honum ekki að skapi. Þessi vandræði Magnúsar eru auðvitað til marks um að framboð T listans er tekið alvarlega og ekkert nema gott um það að segja.

Í lok greinar sinnar ýjar Magnús að því að framboð T listans hafi haft eitthvað að gera með, að hans mati, vafasama túlkun á niðurstöðum þessarar skoðanakönnunar. Þessar hugrenningar frambjóðandans eru með þvílíkum eindæmum að furðu sætir og má sannarlega nota orðalagið "eintóm della" um slíkan málatilbúnað. Skoðanakönnunin var gerð af Fréttablaðinu og framboð T listans kom þar að sjálfsögðu hvergi nærri, frekar en aðrir listar að því er ætla verður. En þetta sýnir glögglega hversu langt menn eru reiðubúnir að ganga til að koma höggi á andstæðing í stjórnmálum. Frambjóðendur T listans munu ekki taka upp slíka "siði", enda stendur óhaggað: T fyrir trúverðugleika!

Kristján Pálsson alþingismaður og oddviti T lista óháðra í Suðurkjördæmi
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024