Sýnum tillitsemi í umferðinni
Slysavarnafélagið Landsbjörg vill minna vegfarendur á að fara varlega í umferðinni nú þegar mesta ferðahelgi sumarsins er framundan. Það má gera ráð fyrir þungri umferð um helgina og spáir leiðinda veðri. Því er mikilvægt að aka alltaf eftir aðstæðum og gefa sér góðan tíma til að komast á milli staða. Í rigningum verða vegir hálir og skyggni verra og ber að taka mið að því við aksturinn. Framúrakstur er alltaf varasamur og ætti að forðast hann í þungri umferð enda eykur hann mjög hættu á slysum og sparar lítinn tíma fyrir þann sem tekur framúr. Aldrei má taka framúr á heilli óbrotinni línu þar sem vegsýn er takmörkuð á þeim svæðum. Ökumenn og farþegar eiga alltaf að vera með bílbelti. Börn undir 36kg þyngd skulu vera í viðeigandi öryggisbúnaði öðrum en bílbeltum. Ökumenn bera ábyrgð á öryggisbúnaði barna undir 15 ára aldri. Þreyta og vímuefni sljóva dómgreind manna til aksturs og því ætti enginni að leggja af stað þreyttur eða þunnur. Að lokum eru hér nokkur góð ráð til að fara eftir í umferðinni:
• Sýnum öðrum vegfarendum fulla tillitssemi
• Miðum ökuhraða ávallt við aðstæður.
• Ef við finnum fyrir mikilli þreytu, stoppm þá og hvílum okkur.
• Verum viss um að bíllinn okkar sé alltaf í góðu lagi.
• Notum öryggisbúnað eins og bílbelti og barnabílstóla.
• Ökum aldrei bíl, eða öðru ökutæki, eftir að hafa neytt áfengis eða fíkniefna.
• Ökum alltaf eins og við viljum að aðrir aki!
Slysavarnafélagið Landsbjörg