Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Sýnum starfsmönnum fulla virðingu
Föstudagur 22. september 2006 kl. 16:28

Sýnum starfsmönnum fulla virðingu

Brottför bandaríska hersins frá Miðnesheiði vekur blendnar tilfinningar hjá Íslendingum sem getur ekki talist óeðlilegt sé litið til þess mikla umróts sem vera þeirra hefur valdið allt frá því þeir komu hingað árið 1951. Það umrót var bæði af neikvæðum toga og þá pólitískum en einnig jákvætt þegar litið er til þeirrar tæknikunnáttu og atvinnu sem þeir færðu landsmönnum með komu sinni.  Íslenskir iðnaðarmenn sem fluttu sig úr störfum í heimabyggð til að starfa við herstöðina fullyrða að verkmenning Íslendinga hafi á 6. áratugnum færst fram um 50 ár við komu þeirra.

Skyndileg brottför
Bandaríkjamenn hafa ævinlega reynst Íslendingum vel og sérstök ástæða til að rifja það upp núna að það var þeirra verk að telja aðrar þjóðir á að styðja okkur í  sjálfstæðisbaráttunni 1944. Ég kveð því Bandaríkjamenn með virktum og minnist veru þeirra hér með hlýhug þó ég telji að þeir hefðu mátt fara fyrr og að brottförin hefði mátt vera betur undirbúin. Ég ætla ekki að kenna Bandaríkjamönnum um það, þjóðin hefur fengið skýringu á því hvers vegna brottför þeirra var svo skyndileg og er það ein hlið þessa máls.

Hin hliðin 
Hin hliðin er að 600 starfmenn hersins sem hafa þjónað varnarliðinu á Miðnesheiði dyggilega áratugum saman misstu vinnuna jafn skyndilega. Til samanburðar er það  álíka og að stærstum hluta fullvinnsluskipa landsmanna væri lagt á sama deginum. Þessum starfsmönnum fylgja aðstandendur og vinir sem hafa áhyggjur. Sem betur fer þá hafa mjög margir þessir f.v. starfsmenn varnarliðsins fengið aðra vinnu og verður að teljast hreint kraftaverk hvað þetta fólk bjargar sér sjálft og leitar uppi tækifærin. Þessir starfsmenn hafa ekki látið það aftra sér að lækka í launum um jafnvel helming sumir og fara í allt annarskonar starf. Þetta fólk á heiður skilið fyrir kjark sinn og þor.

Starfsmenn ríkis
Það verður þó alltaf viss hópur sem lendir í erfiðleikum við að fá nýtt starf sem hentar og þá helst vegna aldurs. Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ hafa stutt vel við bakið á þessu fólki og reyndar sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum yfirleitt. Þessi hópur er þó mjög óánægður og finnst fram hjá þér gengið af ríkinu sbr. orð Hjálmars Loftssonar f.v. starfsmanns varnarliðsins í Blaðinu 22. sept. s.l.  Þegar stórfyrirtæki eða opinberar stofnanir eru lagðar niður er það megin reglan að sýna eldri starfsmönnum þá virðingu að bjóða þeim starfslokasamning og eða eftirlaun. Ég vil taka undir orð Hjálmars að vinnuveitandi starfsmanna varnarliðsins er ríkið þ.e. í hans tifelli bandaríska ríkið en samningslega íslenska ríkið. Það sem virðist vanta er að viðræðunefnd ríkisins taki þetta mál upp við bandarísk yfirvöld. Íslenskir starfsmenn varnarliðsins eiga að mínu áliti þá kröfu á hendur viðræðunefndinni að þeirra mál sé tekið alvarlega og þeim sýnd full virðing.

Kristján Pálsson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024