Aðsent

Sýnum nú smá metnað
Fimmtudagur 26. júlí 2012 kl. 16:06

Sýnum nú smá metnað

Þrátt fyrir þungan og erfiðan fjárhag Reykjanesbæjar er ástæðulaust að láta hugmyndadoða og metnaðarleysi ná yfirhöndinni. Svör framkvæmdarstjóra umhverfis- og skipulagsviðs bæjarins um málefni tjaldsvæðis í Reykjanesbæ í Víkurfréttum  bera það með sér að svo sé orðið. Þar virðist metnaðurinn beinast að því láta hlutina reddast í stað þess að gera eitthvað alvöru úr þeim.

Ferðamannaiðnaðurinn er sú starfsgrein sem einna mest hefur vaxið á Íslandi undanfarin ár. Reiknað er með að sá vöxtur haldi áfram næstu ár og þegar er farið að ræða stækkun eða jafnvel nýja flugstöð á Keflavíkurflugvelli. Þar á bæ sem og víðar um landið eins og til að mynda í nágrannasveitarfélagi okkar Grindavík átta menn sig á að til þess að ná í viðskipti ferðamanna verður þjónustan að vera í lagi. Sómasamleg tjaldstæði eru hluti þeirrar þjónustu. Nýtt og veglegt tjaldstæði í Grindavík hefur þegar sannað gildi sitt, ferðamönnum fjölgað um leið og viðskipti hafa glæðst. Þar er horft til meira en einnar bæjarhátíðar á ári.

Public deli
Public deli

Ekki vil ég gera lítið úr hugmynd framkvæmdarstjórans um að unnt væri að nýta gamla fótboltavöllinn á Iðavöllum, sem hugsanlegt tjaldstæði, en finnst þó að rétt sé að benda á aðrar lausnir sem ef til vill gætu gagnast uppbyggingu ferðamannaiðnaðarins betur. Hér er verið að tala um það svæði er byggt hefur verið upp í kringum Víkingaheima.

Hvað sem segja má um þann kostnað sem lagt hefur verið í vegna Víkingaheima er það þó öllum ljóst að þar í kring hefur farið fram mikil uppbygging, sem þó er aðeins nýtt að hluta. Nútíma tjaldstæði er ekki bara einhver blettur sem hefur verið aflagður. Með tilkomu tjaldvagna, húsbíla og annarra nútímaþæginda hafa kröfurnar breyst. Nú þarf að vera rafmagn og þokkaleg snyrtiaðstaða. Eflaust væri hægt að samnýta þannig snyrtiaðstöðuna í Víkingaheimum með smávægilegum breytingum.

Þær háu og flottu  manir sem með miklum tilkostnaði fyrir bæinn gætu  þannig verið ágætisrammi um tjaldstæði bæjarins sem gæti jafnvel styrkt rekstrarafkomu Víkingaheima. Ekki veitir nú af. Þar mætti setja upp lítið kaffihús sem gestir tjaldstæðisins gætu nýtt sér á fögrum sumarkvöldum eftir rómantíska göngu meðfram ströndinni, á meðan börnin nytu þess að skoða húsdýragarðinn eða leika sér í flæðarmálinu þar sem nemendur Akurskóla hafa byggt upp frábæra aðstöðu. Ekki þyrfti að vera um aukinn kostnað í mannahaldi að ræða þar sem sá er sinnir starfi dýrahirðis sinnti tjaldstæðinu einnig.

Hvort heldur menn velja gamla fótboltavöllinn við Iðavelli eða flottu manirnar við Víkingaheima yrði kostnaðurinn sennilega svipaður, en umhverfið ólíkt.

Með bestu sumarkveðju
Hannes Friðriksson