Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Mánudagur 15. mars 2004 kl. 16:17

„Svona gera menn ekki“

Að undanförnu hefur verið tekist á um það innan bæjarstjórnar í Sandgerði hve miklu fé eigi að verja til framkvæmda, hvenær eigi að hefjast handa og hvernig staðið skuli að fjármögnun framkvæmda.
Í ljósi þess að skuldastaða bæjarfélagsins er ekki mjög góð, heildarskuldir voru við s.l. áramót tæp 960 þús. á hvern íbúa, hafa bæjarfulltrúar B- listans lagt til að farið verði varlega í frekari framkvæmdir a.m.k. næstu tvö árin. Meirihluti bæjarstjórnar hefur hinsvegar á s.l. þremur mánuðum tekið ákvörðun um að ráðast í framkvæmdir og fjárfestingar fyrir um 500 milljónir króna. Til að fjármagna þessar framkvæmdir hefur meirihlutinn samþykkt að selja nokkrar af fasteignum bæjarins og einnig hefur verið lagt til að selja vatnsveituna.
Á fundi bæjarstjórnar þann 10. mars s.l. var samþykkt með 4 atkvæðum meirihlutans gegn 3 atkvæðum minnihlutans að ganga til samninga við Eignarhaldsfélagið Fasteign hf. um að selja og endurleigja grunnskólann, íþróttahúsið og samkomuhúsið og jafnframt verði ráðist í endurbætur á þessum eignum fyrir um 125 milljónir króna.
Við afgreiðslu þessa máls kom bókun frá meirihluta bæjarstjórnar sem er fyrir neðan allar hellur. Þar er farið út í persónulegt skítkast gagnvart bæjarfulltrúum minnihlutans, alvarlegust er þó árásin á bæjarfulltrúa Þ-listans, sem jafnframt er starfsmaður bæjarfélgsins og hefur sinnt því starfi með miklum ágætum. Í bókun meirihlutans segir m.a.:
„Afstaða Ólafs Þórs Ólafssonar vekur furðu þar sem hann er starfsmaður bæjarfélagsins og ætti að leggjast á sveif með núverandi meirihluta við uppbyggingu íþróttamannvirkja í bænum.
Hægt er að draga þá ályktun að afstaða hans sé einnig í mótsögn við afgreiðslu tveggja fagráða er málið varðar þar sem hann er starfsmaður þeirra.“
Þar sem Ólafur Þór situr fundi bæjarstjórnar sem bæjarfulltrúi Þ- listans en ekki sem íþrótta- og tómstundafulltrúi er bókun meirihlutans alvarleg tilraun til skoðanakúgunar og  móðgun við alla starfsmenn bæjarfélagsins.
Undirrituð krefjast þess að meirihluti bæjarstjórnar í Sandgerði , sem heild eða hver fyrir sig, biðji þann ágæta starfsmann Ólaf Þór Ólafsson opinberlega afsökunar á framangreindri bókun. Hið sama þarf bæjarstjórinn að gera fyrir það að þegja þunnu hljóði þegar vegið er að starfsmanni hans á þennan hátt.
Við hvetjum alla ofanritaða til að láta af slíkum vinnubrögðum og halda sig við málefnin,
með von um betra samstarf,

Heiðar Ásgeirsson
Ester Grétarsdóttir
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024