Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Svolítið um fegurð Suðurnesja og búsæld
Fimmtudagur 18. ágúst 2005 kl. 16:19

Svolítið um fegurð Suðurnesja og búsæld

Þegar ég flutti fyrst til Keflavíkur. Fór ég að vinna með manni sem hafði flutt hingað frá Vopnafirði. Er sagði við mig er talið barst að mikilli ótíð sem verið hafði: „Veistu það ekki, að ef það er logn í Keflavík þá er logn í öllum heiminum. Þú kannt að velja staðinn.“

Hann átti líka ekki orð yfir ljótleika Suðurnesjanna. Kallaði þetta svæði eyðimörk og ekkert nema hraun, grjót og sand og hér væri að búa eins og á tunglinu og að hér gerðist ekkert gott. Hann taldi sig hafa reynslu af þessu. Ég spurði hann þá; hvers vegna í ósköpunum hann hefði flutt á þennan útkjálka. Og þá sagði hann mér að það væri vegna þess, að hann ætti veikt barn sem þyrfti að vera í höndum sérfræðinga og hefði Keflavík orðið fyrir valinu vegna þess að hér væri ódýrara húsnæði en í Reykjavík.  Það var líka merkilegt að heyra hvað hann saknaði heimahaganna, því hann var með stöðugan lofsöng um þá. Ég vissi þó hvað hann var að segja, því ég hafði á síldinni kynnst því að það væri bæði lognsamt og fallegt á Vopnafirði.

Þetta varð mér mikið umhugsunarefni; hvað átthagarnir gátu haldið í menn, og varð til þess, að ég fór líka að láta hugann reika til minna fyrri heimahaga, Rifs á Snæfellsnesi, og fór þá líka að sjá það svæði í hillingum, enda fallegt þar, sem leiddi síðan til þess að ég fór, eins og félagi minn, að vera gagnrýnin á allt hér og fannst þá oftast vera rok og rigning og engan fagran blett hér að sjá. Og þá fékk ég að upplifa mátt neikvæðninnar. Svo fóru þeir sem mig heimsóttu að vekja athygli mína á því hvað bærinn væri ljótur. Og þá sérstaklega Hafnargatan, aðalgatan í bænum. Þar stæðu húsin í niðurníðslu eins og í draugabæ. Svo væri innkoman í bæinn sérstaklega ljót og var þá átt við Fitjasvæðið.

Þetta varð til þess að ég spurði mig: „Hvert ertu fluttur:“  En svo liðu árin og ég fór smátt og smátt að vera sáttur við mitt umhverfi og sjá það í nýju ljósi. Ég fór að veita hrauninu eftirtekt og sjá úr því allskonar myndir, er glöddu mig og þá laukst það upp fyrir mér, að ekkert er í raun ljótt, heldur er allt bara mismunandi fallegt. Og eins og skáldið sagði: Ekkert er bara bratt, heldur mismunandi flatt. Og þá lukust upp fyrir mér náttúruheimar sem hvorki ég né vinur minn frá Vopnafirði höfðum séð hér. Þá sá ég fjöllin rísa sem mynda Faxaflóann og skarta sínu fegursta og konunginn í norðri Snæfellsjökulinn, með sína hvítu kórónu koma stundum suður í miðjan flóa í heiðríkjunni og tærleika loftsins, eins og til að heilsa upp á mig. Enda hafði ég setið í fangi hans á Rifi. Og þá laukst það upp fyrir mér, að þótt fjarlægðin geri fjöllin blá og mennina mikla. Þá þarf maður ekki að fara, heldur nægir að horfa á blámann og bara dást. Því hver veit nema fjöllin komi til manns, enda færir trúin fjöll og þá sérstaklega ef maður stendur með sjálfum sér. Því hamingjan felst ekki í því að eiga alla hluti og fara um allt, heldur að eiga þá hluti og vera á þeim stað, sem gerir mann hamingjusaman. 

Og þá fóru undrin að gerast. Bærinn að breytast. Sjóndeildarhringurinn varð nýr. Útisvæði voru skipulögð og trjám var plantað. Ný hús risu og hverfi mynduðust. Og Fitjasvæðið tekið í gegn, svo nú er innkoman í bæinn falleg og til mikillar fyrirmyndar. Hafnargatan endurgerð og við hana byggðar verslana og skrifstofu byggingar og gömul hús gerð upp. Þó má enn þar laga. Að ógleymdum gamla bænum sem áður gekk undir nafninu „Kínatán“ í niðrandi merkingu, en hann hefur líka verið gerður upp, bæði götur og hús, í skemmtilegum stíl og svona má endalaust telja upp.  Nú er ég orðinn meira en sáttur að búa hér í Reykjanesbæ. Því það er mjög góður kostur, enda bærinn orðinn grænn og fjölskylduvænn og hefur mikla framtíð fyrir sér. Hann er í passlegri fjarlægð frá Reykjavík og lítið mál að keyra á milli. Að ég tali nú ekki um, þegar það verður búið að tvöfalda Reykjanesbrautina. Enda er hér mikið minna stress en í höfuðborginni.

Hér er við stjórn gott fólk, bæði hjá ríki og bæ og í einkageiranum, og kann ég því miklar þakkir fyrir stórhug og framkvæmdir sem alls staðar sjást. Og þá sérstaklega sú mikla uppbygging sem á sér stað í Innri Njarðvík. Svo er mér líka hlýtt til nágranna byggðanna og sé þar margt gott vera að gerast. Og ég óska þeim velfarnaðar. En hvort hér sé alltaf rok, eða ekki logn nema það sé logn í öllum heiminum eru náttúrulega miklar ýkjur. Að vísu getur hann blásið hér á nesinu, en hér bærist líka ekki hár á höfði, því hér getur hann dottið í dýrðarinnar koppalogn, þótt hann blási víða annars staðar í heiminum. En svo má líka geta þess í lokinn, að vindurinn er okkur eins nauðsynlegur og að draga andann, en að því kem ég síðar ef mér leyfist.

Kveðja, Hafsteinn Engilbertsson. Heiðarhvammi 5.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024