Svik eða ekki svik
Í blaðinu Reykjanes í gær var grein frá ritstjóra um „Hver sveik hvern“ eins og hann orðar það þar sem hann heldur því fram að það séu svik að við lok kjörtímabils að bæjarfulltrúi endurskoði stöðu sína og bjóði sig fram með öðrum lista til næsta kjörtímabils.
Þetta er ótrúleg framsetning hjá svo reyndum manni að geta lagt slíkt fram.
Voru það þá svik þegar H-listinn sem hafði verið listi sjálfstæðismanna í Garði klofnaði og til var F-listinn. Voru þá Sigurður Jónsson (greinahöfundur), Sigurður Ingvarsson og Ingimundur Guðnason svikarar, ég held ekki.
Sigurður Jónsson hefði nú átt áður en hann skrifaði þennan pistil að líta sér nær á sama hátt og hann leggur öðrum til.
En það eru sannarlega svik þegar bæjarfulltrúi sem kosin er undir merkjum eins lista klífur sig frá listanum til að fara í samstarf með öðrum á miðju kjörtímabili.
Í huga kjósenda eru bæjarfulltrúar kosnir sem fulltrúar þess lista sem þeir bjóða sig fram á og því eru það svik við kjósendur í Garði að Kolfinna S Magnúsdóttir kljúfi sig frá D-lista og fari að starfa með öðrum framboðum. Hún var sannarlega kosin af kjósendum í Garði sem fulltrúi Dlista og þarna skorti henni að fylgja sinni siðferðiskennd gagnvart sínum kjósendum.
Á síðustu mánuðum síðasta kjörtímabils stóðu ég og Laufey Erlendsdóttir frammi fyrir því að við ætluðum þá báðar að bjóða okkur fram fyrir lista sjálfstæðismanna á næsta kjörtímabili og höfðum þá val um það að ganga til liðs við F-listann sem þá var listi sjálfstæðismanna í Garði , en þá réði heiðarleiki og siðferðiskennd okkar beggja því að við kláruðum það tímabil með N-lista sem við vorum kosnar til af kjósendum N-lista.
Bæjarfulltrúum ber að starfa af heiðarleika og sanngirni gagnvart sínum kjósendum út kjörtímabilið en ekki eftir geðþótta ákvörðunum síns sjálfs, heldur velja þá frekar að segja af sér sem bæjarfulltrúar.
Brynja Kristjánsdóttir
Bæjarfulltrúi D-listans