Sveitarfélagið Vogar er með trausta fjárhagsstöðu og öflugt starfsfólk
Það er eðli stjórnmálanna að menn takast á um mismunandi, stefnur, sjónarmið og skoðanir. Þegar ágreiningsmálin eru fá og vel gengur er erfitt að vera í minnihluta og vekja athygli á sér. Þá grípa stjórnmálamenn stundum til þess ráðs að sá fræjum tortryggni og vona að þau nái að festa rætur. Richard Nixon beitti þessari aðferð með góðum árangri til skamms tíma. Við hann er kennd setningin „Let the bastards deny it“. Hans taktík gekk út á það að sá fræjum tortryggni meðal kjósenda og láta andstæðingana um að bera af sér þær „sakir“ sem hann kastaði fram.
Við seinni umræðu um ársreikning Sveitarfélagsins Voga var þessari aðferð beitt og aftur í grein í VF síðastliðinn fimmtudag. Þar er fræjum tortryggninnar sáð varðandi starfsemi sveitarfélagsins, og vonast til að þær skjóti rótum. Ég er ekki stjórnmálamaður og ætla ekki að elta ólar við allt sem kom fram í umræðunni, það er ekki mitt hlutverk. Sem framkvæmdastjóri sveitarfélagsins verð ég að svara því helsta sem snýr að starfsmönnum og starfsemi sveitarfélagsins og biðja hina kjörnu fulltrúa að takast á um málefnin á vettvangi stjórnmálanna, án þess að gera starfsemi sveitarfélagsins tortryggilega.
Viðsnúningur í rekstri á tveimur árum
Við fyrri umræðu um ásreikning Sveitarfélagsins Voga kom ráðgjafi frá KPMG og fór yfir stöðuna. Að ósk forseta bæjarstjórnar var hann beðinn að draga sérstaklega fram stöðuna eins og hún hefði líklega orðið ef ekki hefði komið til sala á hlutum í HS hf. Niðurstaða ráðgjafans er töluvert önnur en sú sem minnihlutinn leggur fram í grein sinni í VF. Oddviti og varaoddviti minnihlutans mættu ekki á þann fund og skýrir það líklega þann misskilning um fjármál sveitarfélagsins sem þau setja fram.
Raunveruleikinn er sá að bæjarstjórn og forstöðumenn stofnanna sveitarfélagsins hafa náð mjög góðum árangri á stuttum tíma við að ná betri tökum á rekstri sinna deilda. Rekstrarniðurstaðan er mun betri en áætlanir gerðu ráð fyrir, hvort sem litið er til sölu hlutafjár eða ekki. Ég frábið mér að það góða starf sé gert tortryggilegt í pólitískum tilgangi. Starfsfólkið á það ekki skilið.
Sumarið 2006 var framkvæmd úttekt á fjármálum sveitarfélagsins sem gaf vísbendingar um að rekstrarforsendur bæjarsjóðs væru ekki góðar, en rekstrarhalli hafði verið fjármagnaður með lántöku og sölu eigna í nokkur ár. Þær niðurstöður voru notaðar sem grunnur að breytingum á vinnulagi sem hefur skilað miklum árangri, samhliða auknum tekjum. Staðreyndin er sú að fjárhagsstaða sveitarfélagsins er sterk, faglega er unnið að stjórn fjármála og enn er unnið að því að styrkja þær stoðir.
Þjónustukaup eru nauðsynleg í nútíma rekstri
Í bókun oddvita minnihlutans á bæjarstjórnarfundi er tilgreint að sveitarfélagið hafi keypt sérfræðiþjónustu fyrir 19 milljónir kr. á síðasta ári. Fullyrti oddvitinn að í stjórnartíð H- lista hafi forseti bæjarstjórnar og bæjarstjóri sinnt þessum verkefnum samhliða öðrum verkefnum. Með þessu er látið að því liggja að sérfræðingar vinni nú orðið flest störf í sveitarfélaginu með ærnum tilkostnaði.
Það er rétt hjá oddvita minnihlutans að sveitarfélagið kaupir ýmsa sérfræðiþjónustu. Þar á meðal er þjónusta félagsráðgjafa, sálfræðinga, talmeinafræðinga, lögfræðinga, viðskiptafræðinga, skipulagsfræðinga, snjómokstursmanna og annarra tæknimanna, svo eitthvað sé nefnt. Að mati undirritaðs eru þetta allt nauðsynleg þjónustukaup í nútíma samfélagi. Óhætt er að fullyrða að félagsþjónusta og ekki síst ýmis stoðþjónusta við skóla og leikskóla hefur tekið stakkaskiptum á undanförnum tveimur árum með nýjum samstarfssamningum við nágranna okkar á Suðurnesjum. Starfsfólk skóla og leikskóla geta staðfest það, og ekki síst þjónustuþegarnir.
Það liggur í augum uppi að tveir einstaklingar hafa ekki sinnt öllum þeim fjölbreyttu verkefnum sem oddviti minnihlutans telur þeir hafa sinnt. Slíkar fullyrðingar eru í versta falli rangfærslur og í besta falli barnaskapur. Það er mikilvægt að halda því til haga að samvinna öflugs starfsfólks og góðra utanaðkomandi sérfræðinga er forsenda faglegrar þjónustu og reksturs, sem skilar sér beint til íbúanna.
Starfsánægja mikil hjá sveitarfélaginu
Í fyrrnefndri grein í VF er látið að því liggja að starfsmenn séu óánægðir í störfum hjá sveitarfélaginu. Sannleikurinn er sá að samkvæmt nýlegri könnun meðal starfsmanna er starfsánægja mikil, og meiri en í stofnunum ríkisins. Það er rétt að breytingar hafa orðið í starfsmannamálum á undanförnum árum og misserum. Margir okkar starfsmanna hafa verið eftirsóttir og sumir hreinlega sóttir til að standa að uppbyggingarverkefnum hjá einkaaðilum. Það er alltaf erfitt að missa gott fólk, en það er líka gott að vita til þess að okkar starfsmenn eru eftirsóttir. Maður kemur í manns stað í þessu sem öðru. Starfsfólkið á það ekki skilið að kjörnir fulltrúar geri starfslok þeirra tortryggileg í pólitískum tilgangi.
Nýtt og öflugt starfsfólk hefur komið til starfa og skilað mjög góðu verki og komið með nýjar hugmyndir. Eins hafa skapast tækifæri fyrir starfsmenn sem hafa verið hjá okkur lengi til að takast á við nýjar áskoranir. Nýju starfsmennirnir koma inn í reynslumikinn hóp forstöðumanna stofnanna sveitarfélagsins sem hefur verið hjá okkur vel á annan tug ára. Þessi blanda af nýju fólki og reynslu og þekkingu á starfsemi sveitarfélagsins er að mínu mati mjög góð. Undanfarið hefur verið unnið að breytingum á stjórnskipulagi sveitarfélagsins og nýrri starfsmannastefnu sem mun bæta enn starfsumhverfið. Nýlega var ráðinn nýr frístunda- og menningarfulltrúi og til stendur að ráða í starf bæjarritara. Stjórnunarteymi sveitarfélagsins er að mínu mati mjög vel mannað og reiðubúið að takast á við fjölmörg spennandi verkefni sem eru framundan.
Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Voga.