Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Sveitarfélagið stóðst áraun heimsfaraldurs
Miðvikudagur 4. maí 2022 kl. 10:25

Sveitarfélagið stóðst áraun heimsfaraldurs

Bókun meirihluta bæjarstjórnar vegna ársreiknings Reykjanesbæjar og stofnana fyrir árið 2021

„Þessi síðasti ársreikningur kjörtímabilsins sýnir að sveitarfélagið hefur staðist þá áraun sem heimsfaraldur hafði í för með sér og er tilbúið til að standa undir þeirri þjónustu sem veita þarf til framtíðar,“ segir í bókun meirihluta Bæjarstjórnar Reykjanesbæjar sem lögð var fram á fundi hennar þriðjudaginn 3. maí.

Þar segir jafnframt: 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Heildartekjur samstæðu (A og B hluta) voru 28,1 milljarður og rekstrargjöld 23,2 milljarðar. Að teknu tilliti til afskrifta, fjármagnsliða og skatta var niðurstaðan jákvæð um 317 milljónir en í áætlun hafði verið gert ráð fyrir 2,5 milljarða halla á samstæðu sveitarfélagsins. 

Heildartekjur bæjarsjóðs  (A hluta) voru 21,8 milljarður og rekstrargjöld bæjarsjóðs námu 18,2 milljörðum. Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir og fjármagnsliði var jákvæð um 3,6 milljarða en að teknu tilliti til þeirra liða var niðurstaðan jákvæð um 2,1 milljarð, en í áætlun hafði verið gert ráð fyrir 2,9 milljarða halla á bæjarsjóði.

Það sem skýrir þessa jákvæðu niðurstöðu er að í ársreikningi er reiknuð einskiptis tekjufærsla vegna yfirtöku eigna frá Eignarhaldsfélaginu Fasteign yfir í bæjarsjóð. Einnig má nefna að gjaldfærð lífeyrirskuldbinding var talsvert hærri en ráð var fyrir gert og hefur hún einnig veruleg áhrif á endanlega niðurstöðu. 

Hins vegar er með réttu hægt að halda því fram að sveitarfélagið standi sterkt þrátt fyrir að atvinnuleysi á Suðurnesjum hafa farið í 24,5%. Atvinnuleysið minnkar  hins vegar hratt þessa dagana og væntingar um að staðan verði orðin ásættanleg með fjölgun ferðamanna nú í sumar. 

Eiginfjárstaða sveitarfélagsins hefur batnað verulega og má þar nefna að árið 2014 ár er hrein eign bæjarsjóðs 2,1 milljarður en er nú 12,6 milljarðar. 

Hrein eign samstæðu eru nú 28,3 milljarðar en var 7,5 milljarðar í árslok 2014. Þess má geta að á þessum tíma hafa skuldir HS Veitna aukist um rúma 7 milljarða og hefur það áhrif á útreikning skuldahlutfalls/skuldaviðmiðs þrátt fyrir að það muni á engan hátt hafa áhrif á rekstur sveitarfélagsins.

Skuldaviðmið er skv. reikningi 102% hjá bæjarsjóði og 120% í samstæðu sem er langt undir þeim viðmiðunarreglum sem gilda um fjármál sveitarfélaga. Það er því ljóst að vel hefur tekist við að halda jafnvægi í rekstri um leið og lagt hefur verið í verulegar fjárfestingar án lántöku. Hin nýja og glæsilega bygging Stapaskóli er gott dæmi um það. 

Þar sem nú er komið að lokum þessa kjörtímabils viljum við kjörnir fulltrúar Beinnar leiðar, Framsóknarflokks og Samfylkingar nota tækifærið og þakka öllum samskiptin, bæði samstarfsfólki í bæjarstjórn og starfsmönnum öllum. Þá hefur nefndarfólk unnið af kostgæfni við að láta hlutina ganga og viljum við þakka fyrir alla þá vinnu sem þau hafa lagt af mörkum. 

Nú tekur við nýr kafli og viljum við óska þeim velfarnaðar í störfum sínum sem taka við keflinu og stýra skútunni áfram en við erum stolt af þeim verkum sem við höfum fengið að vinna að og erum þess fullviss að framtíð Reykjanesbæjar er björt.“ 

Guðbrandur Einarsson, Bein leið

Friðjón Einarsson, Samfylking

Jóhann F. Friðriksson, Framsóknarflokkur

Guðný Birna Guðmundsdóttir, Samfylking

Díana Hilmarsdóttir, Framsóknarflokkur

Styrmir Gauti Fjeldsteð, Samfylking