Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Sveigjanleg starfslok eru réttindamál
Fimmtudagur 10. júní 2021 kl. 13:12

Sveigjanleg starfslok eru réttindamál

Undanfarin ár hefur félags- og barnamálaráðherra lyft grettistaki í málefnum barna, ungmenna og fjölskyldna í landinu. Mikilvægt er að tryggja að þær áherslur komi til framkvæmda og verði áfram hafðar að leiðarljósi óháð því hvaða stjórnmálaflokkar munu mynda næstu ríkisstjórn. 

En að því sögðu tel ég brýnt að meta hvaða umbætur verður að ráðast í þegar kemur að málefnum eldra fólks og að við tryggjum þar skýra stefnu til framtíðar. Mikilvægt er að tryggja örugg og farsæl efri ár, fjölbreytta þjónustu byggða á einstaklingsþörfum, efla fjarþjónustu og sveigjanleg starfslok.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á nýafstöðnum landsfundi Landssambands eldri borgara voru samþykktar ályktanir og tillögur er varða hag eldra fólks. Fimm áhersluatriði voru lögð fram og samþykkt fyrir komandi Alþingiskosningar. Skilaboð landsfundarins eru skýr. Eldra fólk vill fá að vinna eins og annað fólk án skerðinga í almannatryggingakerfinu. Ríki og sveitarfélög þurfa að stórauka samvinnu sína til að veita samhæfða þjónustu þar sem heilsugæslan er vagga öldrunarþjónustu. Þá er brýnt er að byggja upp fjölbreyttara búsetuform sem er millistig milli heimilis og hjúkrunarheimilis, einfalda þarf lagaumhverfið og gera það skilvirkara með því til dæmis að aðskilja lög um eldra fólk og öryrkja og að starfslok miðist við færni en ekki aldur.

Með aukinni áherslu í lýðheilsumálum til dæmis á forvarnir og heilsueflingu sjáum við fram á að eldra fólk verði heilsuhraustara og að hluti þeirra kjósi að vera lengur á vinnumarkaði. Eins og kemur fram í samþykkt landsfundarins, er það réttlætismál að eldra fólk fái að miða starfslok sín við áhuga, færni og getu í stað þess að þurfa að hætta virkri þátttöku í atvinnulífinu eingöngu vegna aldurs. Það er því réttindamál að fella úr allri lagasetningu ákvæði um aldurstengdar viðmiðanir um starfslok.

Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir.
Frambjóðandi í 3.-4. sæti
í prófkjöri Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi, varabæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Reykjanesbæ og formaður velferðarráðs Reykjanesbæjar.