Svartur dagur í löggæslumálum Grindvíkinga
Svartur dagur í löggæslumálum GrindvíkingaÞá er tilkynningin komin frá Jóni Eysteinssyni, sýslumanni, dags. 1. febrúar 2000. Lögreglan í Grindavík skal færð til Keflavíkur að undanskyldum aðstoðaryfirlögregluþjóni sem þeir geta ekki fært þótt mikill vilji sé fyrir hendi.Hann er sá eini sem er skipaður í Grindavík. Í tilkynningu þessari kemur fram að óhagræði hafi verið við nýtingu lögreglumanna með því að hafa þá á tveimur stöðum. Með þessu sé hægt að halda úti þremur lögreglubílum og skal einn af þeim vera til taks í Grindavík og Vogum allan sólarhringinn. Þá vitum við þetta. Nú ætla ég að skoða þessi rök. Sýslumaður tók við lögreglunni í Grindavík þegar árið 1974. Síðan þá hefur verið lögregla undir hans stjórn í Grindavík og ekkert við það að athuga fyrr en ákveðinn fulltrúi kom til starfa við embættið. Það virðast hafa verið hans ær og kýr að færa þetta saman í eitt sennilega s.l. 5 ár og nú hefur það tekist. Þá kemur einnig fram að einni lögreglubifreið sé ætlað að „vera til taks“ fyrir Grindavík , Voga og Reykjanesbraut að auki. Til að hægt sé að halda úti þremur lögreglubifreiðum allan sólarhringinn þurfa að vera minnst 8 menn á vakt en nú eru 7 lögr.m. á vakt meirihluta sólarhringsins. Nema kannski það eigi að fjölga á vöktunum í Keflavík. Taka af einum stað til að treysta á öðrum er ekki ólíklegt. Hvað með helgarvaktir. Mín reynsla er sú að föstudagskvöld og laugardagskvöld eru annasamasti tíminn að jafnaði hjá lögreglumönnum. Svo mikið er stundum að gera að útköll bíða í stórum stíl. Hvað með Grindavík á slíkum tímum. Þeir geta væntanlega bara beðið þangað til að þeim kemur. Ég vorkenni lögreglumönnum í Keflavík að starfa við þessar aðstæður. Þeir eru hinir mætustu menn og gera sitt besta en ég veit að það dugir ekki til.Nú er það svo þegar tveir lögreglumenn eru í eftirliti þreytast þeir og vilja líta við á stöðinni. Þeir þurfa einnig að skila skýrslum í vaktarlok. Verður þá sendur annar bíll eða vantar bara lögregluna.Við flestir sem hafa starfað í lögreglunni erum sammála því að þetta sé nánast útilokað og að halda því fram að þetta sé aukning á löggæslu eru mestu öfugmæli sem maður hefur heyrt. Við höfum séð hvað gerðist í Sandgerði og Mosfellsbæ. Í Reykjavík eru menn að setja upp hverfastöðvar í Breiðholti, Grafarvogi og Árbæ. Þetta er gert til að færa lögregluna nær fólkinu öfugt við það sem er að gerast hér í bæ Við skulum átta okkur á því að þetta er ennþá ein öflugusta verstöð landsins. Hér eru 3 frystitogarar og tugir báta. Við erum með Orkuver Hitaveitunnar, Bláa-Lónið og mörg stór fyrirtæki innan okkar raða og síðan önnur minni. Þá er hér til staðar útibú frá Landsbankanum, Sparisjóðnum og ÁTVR. Ég hygg að þeir menn sem stjórna þessum fyrirtækjum séu ekki alveg rólegir við þessar fréttir. En að lokum þegar menn segja mér að þetta sé aukning á löggæslu þá geta þeir hinir sömu einnig reynt að segja mér að snjórinn sé rauður. Líkurnar eru jafnar.Gunnar Vilbergsson