Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Mánudagur 22. október 2001 kl. 10:01

Svart og sykurlaust

Keikó verður að kjötbollum
Sjávarspendýrið Keikó og njarðvískur hundur voru meðal þess sem var til umræðu á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar sl. þriðjudag- og sitt sýndist hverjum um tilvist þeirra og framtíðarhorfur. Kristján Gunnarsson (S) fór mikinn í umræðunni og byrjaði á að ræða um Keikó. Hann sagðist ekki skilja í því að bærinn ætlaði jafnvel að taka þátt í að framlengja dauðastríð skepnunnar. „Ég tek undir þá skoðun að breyta honum í 20 þúsund kjötbollur og gefa þær hungruðum“, sagði Kristján.

Keikó skemmtir sér vel
Ellert Eiríksson bæjarstjóri upplýsti bæjarfulltrúa um stöðu „Keikó-mála“ og sagði að málið væri enn á skoðunarstigi. „Það er annað mál hvort fólki finnist að það eigi að aflífa Keikó eða ekki. En ég get sagt ykkur það að það væsir ekki um skepnuna því honum finnst gaman að leika sér og sýna sig og vera í kringum fólk“, sagði Ellert og bætti við að ef Keikó kæmi til Reykjanesbæjar þá væri gert ráð fyrir erlendum fjárfestingum fyrir framkvæmdir við aðstöðu fyrir skepnuna.

Var andmælaréttur virtur?
Í framhaldi af umræðunni um Keikó, þ.e. hvort gera ætti úr honum kjötbollur eða hafa hann til sýnis, velti KristmundurÁsmundsson (S) upp spurningu varðandi hundahald í bæjarfélaginu sem snertir jafnframt stjórnsýslulegar aðferðir yfirvalda. Málinu er þannig háttað að bæjarráð ákvað fyrir skömmu, að svipta hundaeiganda í Innri Njarðvík leyfi til hundahalds þar sem oft hefur verið kvartað yfir lausagöngu hundsins í hverfinu. Kristmundur kom með fyrirspurn varðandi hvort umræddur hundaeigandi hefði fengið kvartanirnar skriflega frá bæjaryfirvöldum og eigandanum gerð grein fyrir andmælarétti sínum.

Hægðavandamál hunds ekki mitt mál!
Kristján Gunnarsson (S) gat ekki á sér setið þegar Kristmundur hafði lokið máli sínu og sagði að umrætt hundamál væri nú farið að reyna á þolinmæði hans. „Ég er búin að fá a.m.k. 15 blöð inn um bréfalúguna heima hjá mér, frá Ellerti, þar sem finna má nákvæmar upplýsingar um hvar hundurinn skeit og á hvaða tíma. Eigum við að undirbúa okkur fyrir fundi með því að vita hvar hundurinn hafði hægðir? Björgum frekar trjánum en að eyða tíma og pappír í svona mál. Annars óska ég hundinum alls hins besta í framtíðinni“, sagði Kristján að lokum.

Stjórna lífi og dauða
Ellert svaraði gagnrýni Kristjáns og sagði að bæjarstjórn væri æðsta vald um líf og dauða hunda og þar af leiðandi þyrftu bæjarfulltrúar að þekkja til þeirra mála. „Ég er hvorki stuðningsmaður hunda- né kattahalds en þetta er hárrétt stjórnsýsluleg ábending hjá Kristmundi. Við verðum að kanna hvort hundaeigandinn hafi fengið að njóta andmælaréttar“, sagði Ellert sem þýðir að hundurinn heldur lífi í bili.

Sinnum ekki löggæslu
Böðvar Jónsson (D) var síðastur til að taka til máls varðandi hundahaldið og sagði að þetta væri einfalt mál. „Bæjarstjórn á ekki að sinna löggæslu. Ef menn uppfylla ekki skilyrði um hundahald, sem þeim á eiga að vera kunn, fá þeir ekki leyfi til að halda hund. Þannig er það bara“, sagði Böðvar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024