Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Þriðjudagur 4. september 2001 kl. 09:36

Svart og sykurlaust

Byggðamál eru mál málanna þessar vikurnar hjá bæjarstjórn Reykjanesbæjar. Samkvæmt kjördæmaskipan teljast Suðurnesin með landsbyggðinni en samkvæmt nýjustu skilgreiningu Byggðastofnunar þá eru Suðurnesin hluti af höfuðborgarsvæðinu. Grindavík er eina sveitarfélagið á Suðurnesjum sem alls staðar er skilgreint sem hluti af landsbyggð...

Höldum vöku okkar
Bæjarfulltrúar Reykjanesbæjar eru sammála um að slíkar skilgreiningar séu út í hött, samræmis verði að gæta. Ellert Eiríksson (D) bæjarstjóri lagði áherslu á, á fundi bæjarstjórnar fyrir skömmu, að bæjarfulltrúar ættu að halda vöku sinni í málinu en ekki að ana að neinu fyrr en Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum væri búið að skila af sér skýrslu um málið. „Það er ekki um stórar upphæðir að ræða sem fyrirtæki og einstaklingar hafa fengið frá Byggðastofnun, en þessar upphæðir geta þó skipt viðkomandi fyrirtæki miklku máli“, sagði Ellert.

Gagnslaus stofnun
Þorsteinn Erlingsson (D) bæjarfulltrúi lá ekki á skoðun sinni um málið og sagði að besta lausnin væri að leggja Byggðastofnun niður. „Nú eru þeir búnir að drösla Byggðastofnun norður á Sauðaárkrók. Þessi stofnun hefur ekki gert nokkurn skapan hlut og það er alveg hægt að fara aðrar leiðir til að veita fjármagni til sveitarfélaga“, sagði Þorsteinn.

Tilskipanir Evrópubófa
Kristján Gunnarsson (S) er þekktur fyrir að skafa ekki utan af hlutunum. Hann kallaði Byggðastofnun „Hönd dauðans“ og Evrópumálin voru honum einnig hugleikin á fundinum, enda er byggðakort Byggðastofnunar runnið undan rifjuðm „norskra Evrópubófa“. „Ég er mjög óhress með afskiptaleysi íslenskra stjórnvalda af þróun Evrópumála. Forsætisráðherra hefur dregið fyrir alla glugga og bannað umræðu um Evrópumálin. Eigum við að sitja og rífast og skammast eða eigum við að koma einhverju frá okkur. Ég er til í það“, sagði Kristján.

Erum týnd á kortinu
Þorsteinn Erlingsson og fleiri viðstaddir voru sammála mörgu af því sem Kristján sagði, en Þorsteinn virtist hafa litla trú á því að orð nokkurra bæjarfulltrúa í bæjarstjórn Reykjanesbæjar næðu eyrum „Evrópugúrúanna“ í Brussel. „Við erum valdalaus gagnvart Evrópubandalaginu. Þeir hlusta ekki á okku enda vita þeir varla hvar við erum í heiminum“, sagði Þorsteinn.

Rautt tölvupartý
Á meðan þessi umræða fór fram voru Njarðvíkingarnir Böðvar Jónsson (D) og Ólafur Thordersen (S) uppteknir við að skoða heimasíðu Þjóðviljans í nýju fartölvunni hans Jóhanns Geirdal. Blaðamanni er ekki kunnugt um hvað þeir voru að lesa, en gaman var að sjá þessa pólitísku andstæðinga rýna saman í rauða síðu Þjóðviljans. Þeir virtust njóta augnabliksins, stungu af og til saman nefjum og flissuðu og fjösuðu framan við tölvuna.

Frábært framtak
Björk Guðjónsdóttir (D) tjáði sig ekki um Evrópumálin og Þjóðviljasíðan virtist heldur ekki vekja sérstakan áhuga hennar. Hún hafði meiri áhuga á menningarmálum bæjarins og sagði Norðuróp hafa verið frábært framtak. Björk talaði einnig um að Ljósanótt væri mjög hvetjandi fyrir fólk í bænum sem væri að fást við listsköpun.

Vilja ekki drykkjulæti í bænum
Skúla Þ. Skúlason (B), oddviti bæjarstjórnar tók ásýnd bæjarins á Ljósanótt til umræðu, en hann sagðist hafa verið á menningarnótt í Reykjavík um daginn, og ekki litist á ærslin og drykkjulætin sem hófust um miðnætti niður í bæ. Hann lagði áherslu á að yfirvöld yrðu að gæta þess að slíkir hlutir myndu ekki varpa skugga á Ljósanótt í Reykjanesbæ. Kristmundur Ásmundsson (S) og fleiri bæjarfulltrúar tóku undir með Skúla.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024