Svar við spurningum Margeirs
Þann 13. maí sl. skrifar Margeir Vilhjálmsson grein á VF.is sem ber yfirskriftina „Hver er bæjarstjóraefni flokkanna?“ og kallar eftir umræðu um fjögur mál. Hér eru viðbrögð okkar í Frjálsu afli við þessum umræðupunktum:
Þú segir: „Samkvæmt greinaskrifum er skuldastaða Reykjanesbæjar eitt af stóru vandamálunum.“ Ég get fullyrt að það er ekki einungis samkvæmt greinaskrifum. Ársreikningur Reykjanesbæjar fyrir árið 2013 gefur þetta skýrt til kynna. Við erum sammála því að það er ekki hægt að gera allt. Þess vegna hefur Frjálst afl sett sér mjög hófsama og einfalda stefnuskrá þar sem áhersla er lögð á að hagræða og efla atvinnusköpun. Við leggjum m.a. áherslu á að bæta umgjörð í skólastarfi til að auka vellíðan nemenda og starfsmanna og stuðla þannig að betri námsárangri. Slíkar breytingar kalla ekki endilega á aukin fjárútlát, heldur geta þær falist í endurskipulagningu og bættum starfsanda.
Þú spyrð hvort bæjarbúar megi sjá fram á að starfsmönnum bæjarins muni fækka. Við viljum ráða nýjan bæjarstjóri á faglegum grundvelli – ekki pólitískum – sem fær það verkefni að endurskipuleggja fjármál bæjarins, sem og stjórnsýsluna, með það að markmiði að hagræða og greiða niður skuldir. Þegar sú vinna skilar árangri skapast tækifæri til að lækka álögur á bæjarbúa og halda áfram framkvæmdum á vegum bæjarins. Það kemur í hlut nýs bæjarstjóra að gera tillögu að breytingum og tíminn verður að leiða í ljós í hverju þær breytingar felast. Að minnsta kosti er flestum orðið ljóst að það er kominn tími til að breyta og laga rekstur bæjarins.
Til að fjölga störfum viljum við leggja sérstaka áherslu á raunhæf verkefni sem skila árangri strax. Við viljum styðja hina mikilvægu uppbyggingu í Helguvík sem mun skila fjölda vel launaðra starfa til íbúa bæjarfélagsins, jafnframt því sem við leggjum sérstaka áherslu á að efla ferðaþjónustuna. Mikil uppbygging hefur orðið í hótelrekstri og gistiheimilum í Reykjanesbæ undanfarin ár og sömuleiðis hefur orðið gríðarleg aukning í bílaleigurekstri, en við teljum vera mikil sóknarfæri í afþreyingarþjónustu á svæðinu fyrir ferðamenn.
Það er rétt hjá þér að Sjálfstæðisflokkurinn teflir enn og aftur Árna Sigfússyni fram sem bæjarstjóraefni. Hann hefur nú þegar setið í 12 ár og mun þá hafa setið í 16 ár við lok næsta kjörtímabils, hljóti hann endurkjör Þá munu fermingarbörn bæjarins ekki þekkja bæinn öðruvísi en með þennan bæjarstjóra.
Lokaspurningu þína um hvaða kandídatar séu í boði teljum við vera hluta af gamaldags hugsun þar sem bæjarstjóri þurfti að vera pólitískur. Við höfnum því og viljum ráða bæjarstjóra á faglegum forsendum, bæjarstjóra sem hefur kunnáttu til að snúa slæmri rekstrarstöðu bæjarfélagsins í betra horf. Kosningarnar snúast nefnilega um að kjósa fólk í bæjarstjórn. Þetta eru ekki bæjarstjórakosningar.
Davíð Páll Viðarsson 3.sæti
Frjálst afl – Fyrir ykkur
X-Á