Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Miðvikudagur 28. ágúst 2002 kl. 10:03

Sunnudagsmorgun í Keflavíkurkirkju

Sumir hafa lagt það í vana sinn að vafra um á netinu daglega og margir heimsækja www.vf.is og mbl.is. Fleiri og fleiri líta einnig á Reykjanesbaer.is, en færri vita eflaust að keflavikurkirkja.is heldur úti vefriti sem fróðlegt er að skoða.Það var þéttsetinn bekkurinn í almennri guðsþjónustu í Keflavíkurkirkju s.l. sunnudag. Þá voru 3 börn borin til skírnar og í predikun sinni lagði séra Ólafur Oddur Jónsson út frá spurningunni um það hvort viðskiptasiðferðið væri miskunnarlaust. Fyrri ritningalestur dagsins var um samskipti þeirra Kains og Abels um það þegar Kain spyr Drottinn hvort hann eigi að gæta bróður síns. Guðspjall dagsins var úr Lúkasi 10. 23.-37 um “miskunnsama samverjann” og vakti séra Ólafur okkur óneitanlega til umhugsunar um það samfélag sem við búum í og þau siðalögmál sem þar gilda? Ríkir miskunn? Hver er hámarkságóðinn? Hann minnti á andlegu gæðin sem eru eilíf og ótakmörkuð og samt erum við að fást við andlega fátækt þó í boði sé “líf í fullri gnægð”. En það er margt í boði og spurning hvort það borgar sig að vera góður eða er mennskan í mannlífinu á undanhaldi?

Séra Ólafur velti upp spurningunni um það t.d. hvort siðfræðin skipti máli fyrir efnahagslífið eða hvort það fylgi eigin lögmálum? Hann ræddi einnig um siðferðilegar undirstöður og tengsl milli siðfræði og fésýslu. Hvar kemur svo kærleikshugsjón kristninnar til sögunnar? Getur það verið að breiskleiki mannsins komi best fram í viðskiptum og stjórnmálum? Þannig tengdi hann umræðuna við guðspjall dagsins eins og honum er lagið.

Í lok messunnar var svo beðið fyrir forseta vorum og ríkisstjórn eins og gert er í öllum kirkjum landsins og eins gott. Boðið var upp á kirkjukaffi og spjall í nýja safnaðarheimilinu Kirkjulundi eftir messu og í dagskrá sem afhent var í Keflavíkurkirkju þennan 13. sunnudag eftir trinitatis var minnt á samkirkjulega athöfn trúfélaga sem verður í Kirkjulundi 8.sept. kl.15 þar sem m.a. Árni Sigfússon bæjarstjóri mun flytja ávarp.
Greinarhöfundur fór vel nestaður af andlegu fóðri heim úr messu þennan dag. Þar fór góður og uppbyggilegur sunnudagsmorgun.

hm
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024