Suðurstrandarvegur: „Á hluta vegastæðisins eru ómetanlegar minjar um sögu upphafs Íslandsbyggðar“
„Ég hef áður lýst skoðun minni á nauðsyn þess að fara varlega þegar kemur að lagningu Suðurstrandavegar. Í viðtali við Víkurfréttir segir Hjálmar Árnason, alþingismaður og fyrrverandi kennari minn, að vegurinn sé að koma úr umhverfismati og ætti framkvæmdin að geta farið í útboð mjög fljótlega. Hjálmar segir 500 milljónirnar sem komu til verks í dag séu til viðbótar við það fé sem áður hefur verið úthlutað til verksins. Það að Suðurstrandarvegur sé lagður á sama tíma og unnið er að tvöföldun Reykjanesbrautar sé mikið hagsmunamál fyrir Suðurnesjamenn. Vegurinn komi sér vel bæði frá sjónarmiðum atvinnu og ferðaþjónustu“, segir Ómar Smári Ármannsson í bréfi til Víkurfrétta.Ómar Smári heldur áfram „Í viðtalinu gefur Hjálmar sér að umhverfismatið verði jákvætt fyrir legu vegarins skv. fyrirliggjandi tillögu. Það eitt og sér er skelfilegt til að vita. Alþingismaður, sem tekur starf sitt alvarlega, ætti að vera varkárari í orðavali. Staðreyndin er nefnilega sú að á hluta vegastæðisins eru ómetanlegar minjar um sögu upphafs Íslandsbyggðar. Það svæði hefur ekki verið skoðað nægilega enn sem komið er. Við og undir Ögmundarhrauni kunna að leynast minjar, sem gætu varpað nýju ljósi á komu og dvöl landnema áður en norrænir menn komu til landsins. Fum og óðagot við vegalagningu gætu spillt möguleikum á að leiða hið rétta í ljós. Afstaða þingmannsins lýsir ekki miklum áhuga á umhverfinu, sögunni og tillitsemi við landið okkar. Vonandi eru þó fleiri með skynsamlegri afstöðu hvað þennan þátt varðar sem og það svæði sem um ræðir. Nýr og betri Suðurstrandavegur verður lagður, en það skiptir máli hvar hann verður lagður, a.m.k. á ákveðnum kafla. nýi vegurinn skiptir nákvæmlega engu varðandi ferðamennsku. Gamli vegurinn gegnir því hlutverki ágætlega í dag. Ég hef hins vegar skilning á þeim þætti er lítur að atvinnumöguleikum og atvinnumálum, þ.e. fiskflutningum á milli byggðalaga. Ef það er ástæðan fyrir flýtiákvörðun þá eiga menn bara að segja það umbúðalaust. Það verða dýrir fiskflutningar, en þeir eiga ekki heldur að koma í veg fyrir að menn grunngæfi vegastæðið m.t.t. þess sem að framan greinir“, segir Ómar Smári Ármannsson í bréfinu til Víkurfrétta.