Suðurnesjamenn standi saman um Byggðasafnið á Garðskaga
Glæsilegt byggðasafn var opnað laugardaginn 2. júlí sl. á Garðskaga. Það kemur í framhaldi af safni sem Ásgeir Hjálmarsson hefur að mestu komið upp í tómstundum en er nú komið í nýtt húsnæði og er í alla staði glæsilegt.
Þarna er ekki aðeins hefðbundið byggðasafn, heldur einnig einstakt safn véla, rúmlega 60 alls, sem Guðni Ingimundarson frá Garðstöðum hefur gert upp að slíkri snilld að þær eru nær allar gangfærar.
Þegar maður sér þennan árangur rennur manni til rifja ástandið í byggðasafnsmálum Reykjanesbæjar. Munir safnsins mun nú vera á götunni eina ferðina enn. Þeir tímar ættu að vera liðnir að menn láti sér detta í hug að byggðasafn rísi í Keflavík, Innri-Njarðvík, Sandgerði og jafnvel víðar á Suðurnesjum. Okkur tókst að sameinast um hitaveitu, rafveitu, vatnsveitu og fjölbrautaskóla. Er ekki mál til að allir standi saman um byggðasafnið á Garðskaga.
Á öllu þessu svæði var notast við svipuð tól og tæki á þeim tímum sem byggaðsafn á að lýsa. Ég vil óska Garðmönnum til hamingju með framtakið og eiga þeir heiður skilið fyrir. Ég skora á alla sveitarstjórnamenn á Suðurnesjum að leita nú samstarfs við Garðmenn svo að úr verði eitt virkilega gott byggðarsafn á Suðurnesjum.
Ég hvet alla til að heimsækja byggðarsafnið á Garðskaga. Enn fremur er frábært að fara í kvöldkaffi á kaffistofuna sem er uppi í byggðarsafninu og njóta útsýnisins yfir Faxaflóann, óvíða er fallegra sólarlag og með heppni getur gefist að sjá hvali leika listir sínar allt upp undir fjöruborð.
Ólafur Björnsson.
Myndin: Frá opnun Byggðasafnsins á Garðskaga á laugardag. Frá vinstri: Ásgeir Hjálmarsson safnstjóri, Guðni Ingimundarson bifreiðastjóri og þúsundþjalasmiður og Sigurður Jónsson bæjarstjóri í Garði.