Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Suðurnesjamenn marki sér stefnu í hjúkrunar- og öldrunarmálum
Föstudagur 11. október 2013 kl. 09:58

Suðurnesjamenn marki sér stefnu í hjúkrunar- og öldrunarmálum

Aðalfundur 60+ á Suðurnesjum haldinn þriðjudagskvöldið 8. október hófst með því að látins félaga, Hilmars Jónssonar formanns félagsins til margra ára, var minnst. Að því loknu var gengið til almennra aðalfundastarfa og ný stjórn kosin. Stjórn og varastjórn félagsins skipa þau Loftur H Jónsson formaður, Sigríður Jóhannesdóttir, Jón Ólafur Jónsson, Brynja Pétursdóttir, Sturla Þórðarson og Sigurður Ágústsson.  

Málefni eldri borgara voru í brennidepli á fundinum, skipan þjónustu við eldri borgara á Suðurnesjum og lífeyrismál. Haraldur L Haraldsson hagfræðingur fór yfir skýrslu sína um hjúkrunarheimilið Garðvang og hjúkrunarrými á Suðurnesjum og Árni Gunnarsson  fyrrverandi alþingismaður ræddi nýtt frumvarp um almannatryggingar, hagsmuni eldri borgara og lífeyrismál almennt.

Aðalfundurinn samþykkti samhljóða tvær ályktanir:

Aðalfundur 60+ á Suðurnesjum haldinn 8. október 2013 fagnar því að á næsta ári mun nýtt 60 rúma hjúkrunarheimila verða tekið í notkun á Nesvöllum. Fyrsta nýbygging fyrir sjúka aldraðra á Suðurnesjum reista á krepputímum af ríkisstjórn jafnaðarmanna.

En þörfin fyrir frekari uppbyggingu í þjónustu fyrir eldri borgara á Suðurnesjum er brýn. Áætlanir sýna að staðan verður verri á Suðurnesjum eftir 5 ár en hún er í dag – þrátt fyrir tilkomu nýja hjúkrunarheimilisins. Ef ekkert verður gert stefnir í að um 50 sjúkir aldraðir verði án þjónustu á hjúkrunarheimilum eftir 5 ár.

Aðalfundurinn telur að marka beri sameiginlega stefnu sveitarfélaganna á Suðurnesjum í málefnum eldri borgara á Suðurnesjum sem fyrst. Samstaða Suðurnesjamanna er grunnforsenda áframhaldandi uppbyggingar. Tryggja verður að ákvarðanir sem teknar verða í náinni framtíð hafi hagsmuni Suðurnesja að leiðarljósi og að sveitarfélögin geri með sér samning um stjórnun og rekstur hjúkrunarheimila.  

Aðalfundurinn gerir lokaorð í merkri skýrslu Haraldar L Haraldssonar að sínum:

„Með hliðsjón af framanrituðu er hér lagt til að sveitarfélögin á Suðurnesjum marki sér sameiginlega stefnu í hjúkrunar- og öldrunarmálum fyrir Suðurnes með það að markmiði að tryggð verði öflug þjónusta á forræði heimamanna í þessum málaflokkum á þeirra forsendum.“  


Aðalfundur 60+ á Suðurnesjum haldinn 8. október 2013 skorar á Alþingi að greiða fyrir og samþykkja nýtt frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar sem lagt var fram á Alþingi snemma á þessu ári. Í frumvarpinu felast mikilvægar og jákvæðar breytingar á hagsmunum eldri borgara.

Stjórn 60+ á Suðurnesjum


 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024