Suðurnesjamenn komu þá til hjálpar
Suðurnesjamenn eiga undir högg að sækja í umræðunni þessa dagana og ber þar hæst mikið atvinnuleysi og skuldir sveitarfélaganna. Því verður ekki á móti mælt að atvinnuleysið er mest hér á Suðurnesjunum og skuldastaða sumra sveitarfélaganna eins og Reykjanesbæjar er mikið alvarlegri en komið hefur fram áður. Það er því ljóst að sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa lítið bolmagn til að skapa störf nema að síður sé. Suðurnesjamenn þurfa því hjálp í mjög erfiðu ástandi líkt og þeir hjálpuðu þjóðinni upp úr kreppunni 1949-1951.
Allir sem þurftu fengu vinnu
Íslendingar ein af fáum þjóðum safnaði sjóðum í heimsstyrjöldinni síðari. Þeir sjóðir þornuðu upp á undraskömmum tíma eftir stríðið vegna óraunhæfra fjárfestinga og þegar kom framá árið 1951 var staðan orðin sú að atvinnuleysi á landinu var um 7 % og ríkissjóður rambaði á barmi gjaldþrots. Þá kom herinn. Á skömmum tíma var atvinnuleysinu á landinu eytt. Á fyrstu vikunum í ágúst 1951 voru strax komnir í vinnu hjá hernum um 1000 Íslendingar og Ungmennafélag Njarðvíkur leigði félagsheimilið Krossinn undir verkamenn. Ráðningarstofa Reykjavíkur svaraði auglýsingu Flugvallarstjóra ríkisins 4. apríl 1952 um 751 starf á Keflavíkurflugvelli. Á einni viku var ráðið í störf úr 22 starfsgreinum. Mest voru þetta verkamenn eða 363, 100 skrifstofumenn, 64 trésmiðir, 49 matsveinar, 38 bifreiðastjórar, 28 málarar, vélamenn, túlkar, klæðskeri, útvarpsvirki o.s.frv. Það segir ýmislegt um hve alvarlegt atvinnuástandið var í Reykjavík að það tók aðeins 7 daga að finna atvinnulausa Reykvíkinga í öll þessi störf en þá var 1471 skráður atvinnulaus í Reykjavík. En ástandið var víðar slæmt en í Reykjavík. Bæjarstjórar, þingmenn og oddvitar sveitarfélaga í kringum landið sendu látlaust skeyti á Suðurnesin til að fá vinnu fyrir atvinnulausa úr sínu héraði. Á Siglufirði voru 215 atvinnulausri í janúar 1952 og kom fólkið þaðan í hópum til vinnu á Keflavíkurflugvelli og bæjarstjórinn á Akureyri sendi 60 menn á nokkrum vikum á sama stað. Fjöldi fólks koma einnig frá Ísafirði, Bolungarvík, Sauðárkróki, Siglufirði, Ólafsfirði, Húsavík, Neskaupsstað, Rangárvöllum, Stokkseyri, Borgarnesi, svo nokkur sveitarfélög vítt um landið séu nefnd. Alls telst mér til að á fjórða þúsund Íslendingar hafi verið í störfum hjá hernum á Suðurnesjum á árunum 1951-1955. Suðurnesjamenn þurftu að umturna öllu hjá sér til að koma aðkomufólkinu fyrir og lögðu sig mjög fram til að allir fengju húsnæði. Allir þurftu að fá vinnu og hver skonsa var opnuð fyrir landann.
Samfara komu hersins streymdi hingað bandarísk aðstoð í formi beinna styrka til uppbyggingar í Reykjavík og umbóta á ýmsum sviðum. Þessi mikla uppbygging bandaríska hersins á Suðurnesjum leiddi til loka kreppunnar á Íslandi 1949-1951. Suðurnesjamenn báðu ekki um að fá herinn og voru í raun ekki spurðir hvort þeir vildu herinn á sitt land, en þeir tóku honum með jafnaðargeði og bæði hermenn og aðkomumenn voru boðnir velkomnir. Vera hersins leiddi af sér þá þróun að sjávarútvegurinn í Keflavík og Njarðvík hvarf af svæðinu. Fram að því hafði þetta svæði verið ein stærsta verstöð landsins.
Búum við ekki lengur saman í þessu landi?
Það var lengi búið að tala um að herinn færi og það þyrfti að byggja eitthvað upp í staðinn. Ekkert varð þó úr því og þegar hann fór 2005 reið áfallið yfir og um 700 Suðurnesjamenn misstu vinnuna. Suðurnesjamenn sjálfir hafa reynt að hafa frumkvæði að atvinnuuppbyggingu eftir áfallið m.a. með undirbúningi fyrir byggingu álvers í Helguvík. Þar hefur verið tekin mikil áhætta. Nú bregður svo við þegar Suðurnesjamenn eru í vanda er mjög erfitt að fá aðstoð. Öll orka er meira og minna að verða svæðisbundin. Þeir landshlutar sem nutu þess hér áður að búa saman í einu landi hugsa ekki lengur þannig. Það gengur illa að fá rafmagn í þetta álver í Helguvík. Það má ekki virkja neðri hluta Þjórsár og ef þar verður virkjað má raforkan ekki fara í álver í Helguvík. Er þetta hægt, búum við ekki lengur saman í þessu landi?
Það þarf þjóðarsátt um atvinnu á Suðurnesjum
Nú er mál að linni umræðu um að vandamál Suðurnesjamenna séu þeirra eigin, það er ekki rétt. Það verður að bregðast við ástandinu hér á Suðurnesjum og það strax. Ríkisstjórnin þarf að taka frumkvæðið í að leiða til lykta umhverfis-, skipulags, orku- og fjármögnunarmál sem lúta að atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum. Án raunhæfrar uppbyggingar atvinnulífsins og lausnar á atvinnuleysinu versnar ástandið með ófyrirséðum afleiðingum fyrir land og þjóð. Sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum og ríkisstjórn Íslands verða að setjast niður og leysa sín ágreiningsmál hleypidómalaust, það er fólkið sem verður að ganga fyrir.
Kristján Pálsson
fv. alþingismaður og sagnfræðingur.