Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Suðurnesjamenn á þing
Miðvikudagur 11. mars 2009 kl. 18:41

Suðurnesjamenn á þing

Kæru Suðurnesjamenn.
Nú er lag að standa saman og tryggja Suðurnesjamönnum brautargengi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í komandi prófkjöri næstkomandi laugardag. Á Suðurnesjum býr nær helmingur íbúa í Suðurkjördæmi og því nauðsynlegt að við höfum eðlilegt vægi þegar kemur að niðurröðun frambjóðenda á framboðslistann fyrir komandi Alþingiskosningar.  
Ég hef í nær tvo áratugi lagt Sjálfstæðisflokknum lið með einum eða öðrum hætti. Ég byrjaði tvítugur í pólitíkinni í Garðinum þar sem ég var varasveitarstjórnarmaður í tvö kjörtímabil. Ég var formaður æskulýðsnefndar og átti sæti í stjórn Sjálfstæðisfélagsins í Garði. Er ég fluttist til Reykjanesbæjar tók ég sæti í stjórn ungra sjálfstæðismanna og gegndi síðar formennsku í tvö ár. Ég er í stjórn Sjálfstæðisfélagi Keflavíkur og í stjórn fulltrúaráðsins Reykjanesbæjar. Þá sit ég í umhverfis- og skipulagsráði Reykjanesbæjar og í stjórn Fasteigna Reykjanesbæjar.  
Ég gef kost á mér í prófkjörinu vegna þess að framundan er mikið verk að vinna í þágu lands og þjóðar. Mikilvægt er að auka verðmætasköpun og fjölga atvinnutækifærum og þannig styrkja stoðir samfélagsins.  Ég vil mannsæmandi lífskjör með öflugu heilbrigðiskerfi, fjölbreyttum menntunarmöguleikum og góðri löggæslu. Ég taldi flokkinn minn ekki vera að standa sig og var ósáttur við frammistöðu stjórnarflokkanna og takmarkaðar aðgerðir, á meðan almenningur í landinu blæddi. Ég stóð frammi fyrir því að ganga úr flokknum eða einfaldlega gera mitt til að hafa áhrif, ég valdi seinni kostinn.  
Ástæðan fyrir ákvörðun minni er sú að sannfæring mín er að samfélagið sem ég vil búa í verður ekki að veruleika nema að stefna Sjálfstæðisflokksins verði höfð að leiðarljósi í því uppbyggingarstarfi sem framundan er. Stefnan hefur ekki brugðist þjóðinni, heldur einstaklingarnir sem sváfu á verðinum við að viðhalda gildum hennar, þess vegna krefst ég breytinga.  
Við þurfum einstaklinga á Alþingi sem er í tengslum við raunveruleikann, lífið sjálft. Einstaklinga sem vita hvernig lífskjörin hafa þurrkast út á nokkrum mánuðum, einstaklinga  sem hafa þurft að berjast fyrir sínu. Ég hef slíka reynslu og er reiðubúinn að láta til mín taka í þágu almennings á Alþingi og leitast eftir samstöðu Suðurnesjamanna í prófkjörinu og óska eftir stuðningi ykkar í 4.sætið.  
 
Árni Árnason
Blaðamaður í Reykjanesbæ
Sækist eftir 4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024