Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Suðurnesjamenn, takið þátt í breytingunum
Mánudagur 2. mars 2009 kl. 10:24

Suðurnesjamenn, takið þátt í breytingunum

- Skúli Thoroddsen vill stuðning Suðurnesjamanna í 1. sæti á lista Samfylkingarinnar.

Ágætu Suðurnesjamenn. Bankahrunið og afleiðingar þess, bitna nú harðast á okkur Suðurnesjamönnum, hér er atvinnuleysið mest, hér er ástandið verst. Ekki dugir að sitja með hendur í skauti, heldur verðum við að horfa björtum augum til framtíðar, bretta upp ermar og takast á við vandann. Það verður að skapa traust, til að uppbyggingin og endurreisnin megi takast sem best og mörg okkar krefjast breytinga í stjórnmálum á Íslandi. Það er lýst  eftir fólki sem hefur víðtæka þekkingu og reynslu til að takast á við erfið verkefni framundan. Það þarf kjark og áræði til að vinna að stefnumótun og viðreisn hins nýja Íslands. Ég vil mæta þessum kröfum og leggja mitt lóð á vogarskálarnar til að takast á við þetta krefjandi framtíðarverkefni. Ég gef þess vegna kost á mér til að leiða lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, að skipa 1. sæti listans í mínu heimakjördæmi. Til þess þarf ég stuðning ykkar í opnu netprófkjöri Samfylkingarinnar sem stendur frá n.k. fimmtudegi, 5. mars til laugardags,  7. mars. Það er ykkar að taka þátt í breytingunum með því að kjósa  í prófkjörinu.

Ég er og hef verið framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands, sambands verkalýðsfélaga um landa allt og þekki því mjög vel til atvinnumálanna og hvar skóinn kreppir. Áður en ég hóf störf þar, átti ég þátt í að byggja upp Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, sem fostöðumaður MSS frá árinu 1999 til 2003, en til hennar hefur verið horft sem fyrirmyndar víða.  Ég  var um tíma sérfræðingur hjá framkvæmdastjórn ESB, lögfræðingur hjá Tryggingastofnun, stýrði afeitrunar- og meðferðarstöðvum fyrir vímuefnaneytendur á Íslandi og  í Svíþjóð um nokkurra ára skeið, var lögfræðingur verkamannafélagsins Dagsbrúnar og framkvæmdastjóri Félagsstofnunar stúdenta.
Á vefsíðu minni www.skuli.is,  fjalla ég  um mínar áherslur í efnahags- og atvinnumálum og hvað beri að gera til að taka á vandanum, styrkja undirstöðurnar og koma gjaldmiðilsmálum í ásættanlegt horf.  Ég fjalla líka um björgunaraðgerðir í þágu heimilanna, sem  þola enga bið. Það er forgangsverkefni að fjölga störfum til að draga úr atvinnuleysi. Samdráttur í tekjum, samfara aukinni greiðslubyrði lána, setur sjálfan grundvöll hverrar fjölskyldu í hættu. Þessa þróun þarf að stöðva og tryggja að fjölskyldur missi ekki íbúðarhúsnæði sitt.

Þegar tekist er á um þessi verkefni, um velferð þjóðarinnar, er þekking og reynsla mikilvægt veganesti. Ég hef engra sérhagsmuna að gæta, eingöngu hagsmuna fólksins. Það eru mínar ástæður.
Ég er eini Suðurnesjamaðurinn sem sækist eftir 1. sæti listans í prófkjörinu. Það er ykkar tækifæri til að styrkja heimabyggðina og skapa möguleika á að standa vörð um sameiginlega hagsmuni og sjónarmið okkar. Láta verkefnið í hendurnar á heimamanni. Ég vonast til þess að fá stuðning ykkar í prófkjörinu, takið þátt í breytingunum. Ykkar er valið.

Skúli Thoroddsen, Reykjanesbæ

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024