Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Föstudagur 11. maí 2007 kl. 18:19

Suðurnesjamann á þing!

Það er ákaflega mikilvægt fyrir Suðurkjördæmi og Suðurnes að Sandgerðingurinn Grétar Mar Jónsson komist á þing í vor. Kjördæmið þarf að hafa mann með hans bakgrunn í sínu þingmannaliði. Grétar hefur búið á Suðurnesjum frá því í barnæsku, gjörþekkir sjávarútveginn og atvinnulífið þar fyrir utan. Hann kemur beint úr grasrótinni þar sem hann hefur lifað og starfað með alþýðunni.

Svona frambjóðendur sem telja má sanna fulltrúa almennings, eru satt best að segja orðnir giska fátíðir nú á dögum. Grétar er sá frambjóðandi af Suðurnesjum sem á mesta möguleika á að komast á þing ef marka má skoðanakannanir. Suðurnesjamenn hafa verið með eindæmum óheppnir með gengi sinna frambjóðenda hjá hinum flokkunum, og nú er svo komið að þó að um 40% íbúa kjördæmisins búi á Suðurnesjum þá er enginn af svæðinu í "öruggu sæti".

Ég hef unnið mjög náið með Grétari undanfarin fjögur ár, enda hefur hann verið minn varaþingmaður í Suðurkjördæmi. Hann er harðduglegt góðmenni með ríka réttlætiskennd og hefur einlægan áhuga á að láta gott af sér leiða. Af reynslunni veit ég að hann er vakinn og sofinn yfir málefnum sem varða íbúa Suðurkjördæmis. Hann á eftir að reynast mjög skeleggur talsmaður fyrir almannahagsmunum íbúa á Suðurnesjum hljóti hann kjör til Alþingis á morgun.

Ég hvet kjósendur á Suðurnesjum til að setja x við F og tryggja þannig að íbúar á Suðurnesjum fái öflugan málsvara á þingi á næsta kjörtímabili.

Kjósendum í Suðurkjördæmi þakka ég skemmtileg kynni og samfylgd á liðnu kjörtímabili.

Magnús Þór Hafsteinsson,
alþingismaður og varaformaður Frjálslynda flokksins

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024