Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Suðurnesjalína 2: Samtal, samráð og samvinna
Laugardagur 2. desember 2017 kl. 08:00

Suðurnesjalína 2: Samtal, samráð og samvinna

Það er eitt af hlutverkum okkar hjá Landsneti að stuðla að því að  allir hafi á hverjum tíma aðgang að rafmagni í því magni og þeim gæðum sem þörf er á. Það er líka okkar hlutverk að þróa og byggja upp raforkukerfi landsins en til þess að það sé hægt er mikilvægt að skapa víðtæka sátt um framkvæmdir sem unnið er að og leggjum við mikla áherslu á samtal sem byggist á hreinskilni og gagnkvæmri virðingu.
 
Sveiflur í raforkuflutningi
 
Í nútíma þjóðfélagi eins og okkar, þar sem við erum háð rafmagni, verður að vera hægt að mæta breytileika í orkunotkun og þannig forðast raforkuskerðingar eða svæðisbundið kerfishrun. Suðurnesin eru í dag tengd með eingöngu einni línu við raforkukerfi landsins, um Suðurnesjalínu 1. Þegar sú tenging bregst hefur það í för með sér rafmagnsleysi á Suðurnesjum eins og nýleg dæmi sýna. Því er alveg ljóst að til að bæta afhendingaröryggi rafmagns á Suðurnesjum og er brýnt að bregðast við og leggja nýja tengingu til Suðurnesja.
 
Frá árinu 2006 hefur verið unnið að undirbúningi innviðauppbyggingar flutningskerfisins á Suðurnesjum. Í kjölfar ógildingar framkvæmdaleyfa vegna byggingar Suðurnesjalínu 2 höfum við nú hafið undirbúning að nýju umhverfismati fyrir þessa tengingu í meginflutningskerfinu.
 
Mikilvægt er að flutningskerfið þjóni sínu hlutverki undir þeim fjölmörgu ólíku aðstæðum sem upp geta komið í rekstri raforkukerfisins. Hér er til dæmis um að ræða skipulögð viðhaldsverkefni í flutningskerfinu eða hjá notendum þess svo sem í virkjunum eða ef  um óvæntar truflanir að ræða. Því er mikilvægt þegar innviðauppbygging er annars vegar, að horfa ekki eingöngu á einn „hefðbundinn“ dag í núinu og láta hann endurspegla forsendur alls líftíma línunnar. Í undangenginni umræðu hefur borið á að mörgum hafi yfirsést þetta mikilvæga atriði.
 
Hugsað til framtíðar
 
Nú þegar hefur orðið mikil fólksfjölgun og uppbygging á Reykjanesi. Mikil aukning hefur orðið í raforkunotkun hjá almennum notendum og hjá fyrirtækjum sem nota mikið rafmagn svo sem gagnaverum Þá hefur nýting jarðvarma í landshlutanum aukist mikið. Það hefur því hefur orðið ör uppbygging bæði hjá notendum og framleiðendum raforku.
 
Tengingunni, nýrri Suðurnesjalínu, er ætlað að fullnægja flutningsþörf svæðisins til framtíðar en slík mannvirki er ætlað að endast í það minnsta í 50  ár en þess má geta að elstu línur á landinu eru um 70 ára. Fyrir utan þá aukningu sem þegar hefur orðið er vert að benda á fyrirsjáanlegan vöxt á svæðinu t.d. samkvæmt raforkuspá.
 
Samtal við hagsmunaðila
 
Landsnet hefur boðið hagsmunaaðilum til samtals á Suðurnesjum í sérstöku verkefnaráði fyrir Suðurnesjalínu 2 tilnefndum m.a. af sveitarfélögum á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði. Markmiðið með stofnun þessa vettvangs er að tryggja virkara samtal, skilning og betra upplýsingaflæði milli hagsmunaaðila í aðdraganda ákvarðana um framkvæmdir á okkar vegum.
 
Við hvetjum alla til að fylgjast með á www.landsnet.is þar sem upplýsingar um framvindu verkefnisins verða settar inn sem og fundargerðir og annað sem viðkemur verkefninu.
 
Steinunn Þorsteinsdóttir
upplýsingafulltrúi Landsnets


Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024