Suðurnesjahringurinn
Ágæti Suðurnesjamaður.
Ég ákvað að skrifa grein í Víkurfréttir til að kynna hugmynd sem ég tel að yrði íbúum á Suðurnesjum til mikils framdráttar verði hún framkvæmd. Ég kalla hugmyndina „Suðurnesjahringurinn“. Hugmyndin er sáraeinföld: Lagður verði göngustígur meðfram strandlengjunni frá Sandgerði til Garðskagavita. Frá Garðskagavita göngustígur meðfram ströndinni að smábátahöfninni í Reykjanesbæ. Frá Fitjum verði lagður göngustígur að Ósabotnum og þaðan áfram til Sandgerðis meðfram ströndinni. Auðvitað mætti svo hafa hugmyndina stærri í sniðum og hafa Grindavík og Voga með í hringnum.
Ávinningur af hugmyndinni væri margvíslegur. Í fyrsta lagi myndi útivist og hreyfing hjá íbúum í sveitarfélögunum stóraukast samanber reynslu sveitarfélaganna af stígalögnum innanbæjar. Í öðru lagi væri hægt að markaðssetja Suðurnesjahringinn sem skemmtilega gönguleið. Með svipuðum hætti og þúsundir manna ganga á Esjuna á hverju ári myndu þúsundir ganga Suðurnesjahringinn. Í þriðja lagi væri hægt að skipuleggja ýmsar ferðir og viðburði á Suðurnesjahringnum. Ég nefni sem dæmi:
• Suðurnesjamaraþonið þar sem keppt yrði í hlaupum í hefðbundnum vegalengdum, skemmtiskokki, 5 km hlaup 10 km hlaup, hálfmaraþon og heilmaraþon.
• Keppni í hjólreiðum
• Skoðun fornminja með leiðsögn. Hægt væri að setja upp skilti á sögulega áhugaverðum stöðum
• Fuglaskoðunarferðir
• Safnahringur, þar sem heimsótt væru söfn á Suðurnesjum
• Kirkjuhringur þar sem skoðaðar væru kirkjur sem eru á hringnum
• Hafnahringur þar sem skoðaðar yrðu hafnir á hringnum
• Ljósmyndaferðir
Listinn er auðvitað ekki tæmandi en kjarninn í hugmyndinni er stígur sem þræðir strandlengjuna og tengir sveitarfélögin saman.
Áhrifin af framkvæmdinni yrðu mikil. Takast myndi að sýna fallegt mannlíf og náttúru Suðurnesja og koma svæðinu á kortið sem alvöru útivistarsvæði. Þær þúsundir manna sem myndu ganga eða hlaupa hringinn á hverju ári hefðu mikil og jákvæð áhrif á ímynd Suðurnesja og myndu til lengri tíma auðvelda markaðssetningu svæðisins.Verslun og viðskipti myndu aukast, Suðurnesjahringurinn myndi styrkja rekstur veitingastaða, tjaldstæða og hótela í öllum sveitarfélögum auk þess sem hluti gesta myndi auðvitað versla fatnað og matvöru í leiðinni. Vegna veðráttu yrði hringurinn í notkun allt árið.
Framkvæmdin kostar auðvitað fé. Ég sé fyrir mér að hægt sé að fjármagna lögn stíganna að stórum hluta með því að gera það að átaksverkefni fyrir atvinnulausa og hluti þeirra sem nú er atvinnulaus gæti fengið vinnu við lagningu stíganna. Augljóst er einnig að óska eftir stuðningi stórfyrirtækja eins og álvers og gagnavers við hugmyndina.
Næsta skref er að kynna hugmyndina fyrir stjórnmálamönnunum. Ég hef nú þegar sent sveitarfélögunum Garði, Sandgerði og Reykjanesbæ bréf þar sem hugmyndin er reifuð. Ég hef einnig óskað eftir viðtölum við bæjarstjórana til að fylga „Suðurnesjahringnum“ eftir.
Ég vona að þér lesandi góður lítist vel á hugmyndina og styðjir mig í að koma henni í framkvæmd. Gleðilegt sumar.
Gylfi Jón Gylfason sálfræðingur